Varðskipið Þór er nú á hægri siglingu út Faxaflóa með flutningaskipið Fernöndu í togi, um 30 mílur norðvestur af Garðskaga og á leið burt frá landinu. Lokaáfangastaður hefur ekki verið ákveðinn, en farið verður með skipið eins fjarri hrygningarsvæðum og veiðislóðum og kostur er.
Þá er einnig markmið að komast á svæði þar sem vindátt er hagstæð, miðað við hugsanlegt rek á skipinu ef þörf verður á að hætta að draga það af öryggisástæðum. Fylgst er náið með framvindu mála og staðan endurmetin eftir aðstæðum hverju sinni.
Um hundrað tonn af olíu eru um borð í flutningaskipinu. Skipið er orðið töluvert laskað og óráðið hvort slökkvistörfum verður haldið áfram. Ljóst er þó að langan tíma gæti tekið fyrir eldinn í skipinu að deyja út.