Varðskipið Þór er enn við slökkvistörf vestur af Faxaflóa, vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA flaug á vettvang í dag til að aðstoða við að meta aðstæður og koma búnaði til björgunarmanna.
Sex slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru um borð í Þór.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er staðan svipuð og fyrr í dag. Enn er leitast við að draga úr hita í skrokki skipsins og sprautar varðskipið Þór á skipið eftir því sem aðstæður leyfa.
Aðgerðir miðast sem fyrr við að tryggja öryggi og draga úr hættu á mengun, en um 100 tonn af olíu eru um borð í flutningaskipinu. Aðgerðum verður haldið áfram og staðan endurmetin ef breyting verður á.
Þór hefur nú unnið að björgun flutningaskipsins í þrjá sólarhringa en strax á fyrsta sólarhring voru aðgerðir þær umfangsmestu sem varðskipið hefur sinnt til þessa en það hefur legið við bryggju bróðurpart ársins.