Verði því fylgt eftir sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs um að leggja 1.200 króna gjald á hvern legudag á sjúkrahúsum landsins gæti ríkissjóður fengið um 290 milljónir króna á næsta ári, þar af 200 milljónir vegna innheimtu á Landspítalanum. Ætla má að fjöldi greiðenda væri 27-30 þúsund.
Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna. Í svarinu segir að við mat á áætluðum tekjum hafi almennt verið horft til mögulegs fjölda legudaga á stofnunum að gefnum fjölda sjúkrarýma. Áætluð tekjuaukning miðist við u.þ.b. 80% nýtingu á þeim sjúkrarýmum sem eru á stofnuninni.
Á árinu 2012 var meðallengd legu á sjúkrahúsi á bilinu átta til níu dagar, en það þýðir 10–11 þúsund króna gjald fyrir legu að jafnaði.