Fimm ára fangelsi fyrir harkalega og hættulega árás

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Wojciech Marcin Sadowski í fimm ára fangelsi fyrir að fyrir frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart ástralskri konu í Reykjavík í apríl sl.

Sadowski, sem er pólskur ríkisborgari, er jafnframt gert að greiða konunni 3,2 milljónir króna í skaða- og miskabætur.

Ríkissaksóknari ákærði manninn þann 2. júlí sl. fyrir frelsissviptingu með því að halda konunni nauðguri í verslunarhúsnæði að Lágmúla í Reykjavík í 30 til 40 mínútur. Fram kemur að Sadowski, sem hafði lykla að húsnæðinu, beitti konuna ofbeldi þar og hleypti henni ekki út þrátt fyrir að hún bæði hann um það. Þá kemur fram að hún hafi reynt að komast út úr húsnæðinu, sem var læst, m.a. með því að brjóta gler í útidyrahurð.

Þá var hann ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og nauðgun. Í ákærunni segir að hann hafi veist með ofbeldi að konunni, krafið hana um kynlíf, ítrekað slegið og sparkað í höfuð hennar og líkama, þröngvað henni til munnmaka og haldið áfram árás sinni eftir það.

Konan hlaut talsverða áverka í árásinni.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Sadowski hefði neitað sök. Hann kvaðst ekki hafa svipt konuna frelsi, veist að henni með ofbeldi eða þröngvað henni til munnmaka. 

Héraðsdómur segir að framburður konunnar hafi verið trúverðugur. „Hún gaf skýra og greinargóða lýsingu á atvikum við aðalmeðferð málsins, sem var í öllum meginatriðum í samræmi við frásögn hennar við skýrslutöku hjá lögreglu og við réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku í kjölfar atburðarins. Þá fær framburður hennar stoð í læknisfræðilegum gögnum og niðurstöðum tæknirannsóknar lögreglu, sem rakið hefur verið,“ segir í dómi héraðsdóms.

Hún gaf skýrslu hjá lögreglu laugardaginn 20. apríl. Þar kom fram að hún hefði verið að skemmta sér með tveimur vinum sínum kvöldið áður, en þau höfðu verið að drekka á börum í miðborginni. Þá segir, að hún kvaðst muna etir sér klukkan rúmlega tvö um nóttina, en ekki það sem gerðist eftir það. Hún taldi minnisleysi sitt stafa af áfengisneyslu. Hún kvaðst næst muna eftir sér þar sem hún hafi verið stödd á stað sem líktist vöruskemmu sem verið væri að gera upp. 

Beit eins fast og hún gat í getnaðarlim mannsins

„Þá hafi verið farið að birta af degi og kvaðst hún hafa áttað sig á því að kominn væri morgunn og hún yrði að flýta sér til að reyna að ná flugi sem hún átti bókað úr landi. Hún kvaðst hafa reynt að komast út úr húsinu, en dyrnar hefðu verið læstar. Maður hefði legið sofandi á gólfinu og hefði hún reynt að vekja hann. Hún kvaðst muna atvik eins og „skyndimyndir“. Eftir að maðurinn vaknaði hefði hann reynt að fá hana til að hafa við sig kynferðismök, en hún hefði neitað því og ýtt honum frá sér. Hún kvaðst hafa öskrað á hann að hún þyrfti að komast út. Þá hefði hann lamið hana og beðið hana að veita sér munnmök. Hún kvaðst hafa áttað sig á því að eina leiðin til að komast í burtu væri að eiga við hann munnmök og bíta hann. Það hefði hún gert og bitið eins fast og hún gat í getnaðarlim mannsins svo að hann hefði hlotið áverka af. Maðurinn hefði þá byrjað að kýla hana og sparka í hana,“ segir í dómi héraðsdóms.

Dómari segir að framburður mannsins um háttalag konunnar eftir að hún vakti hann um morguninn og atvik eftir það hafi verið afar ótrúverðugur, auk þess að vera misvísandi. Þá sé frásögn hans að verulegu leyti í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn um áverka konunnar og blóðferlagreiningu. „Metur dómurinn framburð ákærða ótrúverðugan og er honum alfarið hafnað,“ segir ennfremur.

Dómari segir að leggja beri frásögn konunnar til grundvallar í málinu. Þótti sannað að maðurinn hefði svipt konuna frelsi, veist að henni með ofbeldi meðan á frelsissviptingunni stóð og þröngvað henni til munnmaka. „Atlaga ákærða að stúlkunni var harkaleg og var sú aðferð hans að slá og sparka ítrekað í höfuð hennar sérstaklega hættuleg,“ segir í dómnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert