Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að það sem af sé þessu ári hafi 942 eignir verið seldar á nauðungarsölu. Á sama tíma í fyrra voru eignirnar 1.174 og 1.219 árið 2011. „Þannig að farsællega hefur þessu fækkað og tölurnar núna eru sambærilega við stöðuna sem var hér uppi árið 2003.“
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, en Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, spurði ráðherra út í málið og sagði að það yrði að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að heimili yrðu sett á slíka sölu.
„Við hljótum að fagna því að þessum aðgerðum hefur fækkað og það hlýtur að benda til ákveðinnar bættrar stöðu,“ sagði Hanna Birna. Hún bætir við að það sé ekki rétt, sem hafi komið ítrekað fram, að að þegar nauðungarsala fari fram þá þurfi fjölskyldur að fara strax út úr húsnæði sínu.
„Lögum var breytt hér á síðasta kjörtímabili þannig að fyrri eigendur geta setið í eigninni allt að 12 mánuði gegn greiðslu hæfilegrar húsaleigu. Það er aðgerð sem farið var í á síðasta kjörtímabili. Þannig að það er ekki þannig að um leið og nauðungarsala hefur farið fram þá verði fjölskyldur að víkja úr eigninni,“ sagði Hanna Birna.