Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann og konu á þrítugsaldri í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Um er að ræða par sem stal vörum fyrir 60 þúsund danskar krónur, jafnvirði 1,3 milljóna íslenskra króna, í Færeyjum.
Annars vegar tóku þau ófrjálsri hendi vörur fyrir 40 þúsund danskar krónur úr VB húsinu í Vágur 27. júní 2010 og hins vegar fyrir 20 þúsund danskar krónur úr TB húsinu í Tvøroyri 29. ágúst 2010. Meðal þess sem þau stálu voru stafrænar myndavélar, leðurjakkar og farsímar.
Parið sagðist fyrir dómi hafa verið í rugli á þessum tíma en um leið og þau hafi áttað sig á því hvað þau gerðu hafi þau skilað þeim varningi sem þau tóku.
Í niðurstöðu dómsins segir að af gögnum málsins verði ekki annað séð en að rannsókn þess hafi verið lokið á árinu 2010. Engin viðhlítandi skýring hafi verið gefin á drættinum en ákæra var fyrst gefin út 30. september 2013. Var refsingin því skilorðsbundin.