Poppstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson er einn margra sem urðu fyrir einelti í barnæsku. Hann segist ekki hafa passað í það kassalaga munstur sem boðið var upp í grunnskóla og fyrir vikið hafi hann þótt of hallærislegur til að sitja við hliðina á hinum strákunum. Hann sat því einn í sjö ár.
„Á þessum tíma sátu stelpur ekki við hliðina á strákum. En að sama skapi var ég of hallærislegur til að sitja við hliðina á hinum strákunum. Afleiðingin af því var sú að ég sat einn í bekknum í sjö ár, frá því ég var sjö ára þar til ég var fjórtán ára,“ segir Páll Óskar.
Gerð hefur verið stuttmynd um upplifun Páls Óskars og heldur hann reglulega fyrirlestra um efnið ásamt Magnúsi Stefánssyni sem var hinum megin við borðið, sem gerandi.
Páll Óskar og Magnús munu verða með fyrirlestur í Verslunarskóla Íslands í dag þar sem dagskrá verður vegna baráttudags gegn eineltis sem haldinn er í þriðja skipti í dag. Allir aðilar skólasamfélagsins eru hvattir til að mæta og aðgangur er ókeypis en dagskráin er á milli 13 og 16.