Stefnt er að því að rífa flutningaskipið Fernöndu í brotajárn, en skipið er nú í höfninni á Grundartanga þar sem það bíður örlaga sinna. Í gær komu eigendur skipsins til Íslands og von er á fulltrúum frá tryggingafélagi útgerðarinnar, sem er eistnesk, nú um helgina. Tryggingafélagið mun fara með forræði málsins.
„Þetta er orðið tryggingamál,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í samtali við mbl.is.
Varðskipið Þór dró Fernöndu til hafnar á Grundartanga á miðvikudag, en það var gert í samráði við Faxaflóahafnir og Umhverfisstofnun.
„Það sem er verið að skoða núna og verður gert eftir helgina er að dæla olíunni af skipinu, sem er nú ekki stórt verkefni. Í framhaldi af því mun tryggingafélagið væntanlega leita eftir tilboðum í niðurrif. Hvort sem það verður innanlands eða utanlands veit ég ekki,“ segir Gísli.
Aðspurður segir Gísli að það muni ekki taka langan tíma að dæla allri olíu af skipinu. „Þeir eru eldklárir á því hjá ODR [Olíudreifingu] og margreyndir,“ segir Gísli og bætir að um gasolíu sé að ræða.
Hvað varðar að fá tilboð í niðurrif, segir Gísli að það geti tekið einhverja daga eða vikur. „Það er ekkert að trufla okkur þá að skipið liggi þarna, þess vegna í eina, tvær, þrjár vikur eða hvað það er. Ef skipið verður dregið til útlanda þá verðum við auðvitað að hafa skilning á því að þá þurfa menn að sæta lægðum, það er að segja veðri,“ segir Gísli.
Hann segir aðspurður að Faxaflóahafnir hafi samþykkt beiðni Landhelgisgæslunnar um að draga skipið til hafnar á Grundartanga. „Þá tökum við á okkur samhliða ákveðnar skyldur sem snúa að mengunarmálunum,“ segir Gísli.
Það hafi annars vegar verið nauðsynlegt að gæta að öryggis- og mengunarmálum og hins vegar að ljóst sé að tryggur aðili standi á bak við flutningaskipið. „Skipið er með tryggingu og traustan tryggingaaðila,“ segir Gísli að lokum.
Skipið er illa leikið eftir eldsvoðann.