Fjórar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú að störfum samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Björgunarsveitin Suðurnes hefur þannig verið kölluð út til að eltast við fjúkandi trampólín, Þorbjörn í Grindavík er að festa klæðningu sem var að losna af húsi og Björgunarfélag Akraness var kallað út til að fást við lausar þakplötur.
„Einnig hefur Björgunarsveit Hafnarfjarðar verið fengin til að loka veginum í Bláfjöll, Hafnarfjarðarmegin, þar sem er stormur og brak fýkur yfir veginn frá skála er brann í nótt. Einnig hefur sveitin aðstoðað ferðamenn við að komast af svæðinu og til byggða. Slæmt veður gengur nú yfir landið og brýnir Slysavarnafélagið Landsbjörg landsmenn til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu og þá eingöngu á vel búnum bifreiðum. Einnig að ganga tryggilega frá lausum munum í sínu nánasta umhverfi,“ segir ennfremur.