Göngin halda fólki á svæðinu

Héðinsfjarðargöng
Héðinsfjarðargöng Sigurður Ægisson

Fyrstu niðurstöður rannsóknar á áhrifum Héðinsfjarðarganga benda til þess að göngin hafi ýmis jákvæð áhrif á þróun byggða á svæðinu. Að rannsókninni stendur hópur sérfræðinga sem starfa við Háskólann á Akureyri og var rannsóknin styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, stýrði þessari rannsókn en þetta er í fyrsta sinn sem svona viðamikil rannsókn á áhrifum mannvirkja er framkvæmd hér á landi.

Umræðunni lyft á hærra plan

„Áður en farið er út í stórar framkvæmdir eins og Héðinsfjarðargöng er gert mat á líklegum samfélagsáhrifum þeirra. Oft verða miklar deilur um hversu raunhæft slíkt mat sé en sjaldnast er kannað hver raunveruleg áhrif framkvæmdanna séu. Þess í stað hefjast deilur um líkleg áhrif næstu framkvæmda. Þegar ákvörðunin um Héðinsfjarðargöng hafði verið tekin sáum við þarna mikilvægt tækifæri til þess að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan með því að meta hin raunverulegu samfélagsáhrif,“ segir Þóroddur.

Tölur Hagstofu reyndust óáreiðanlegar

„Við settum saman rannsóknarteymi sem skipar einstaklingum sem hafa áhuga á mismunandi hlutum eins og til dæmis mannfjöldaþróun, sveitarstjórnarmálum, jafnréttismálum, fasteignamörkuðum, ferðaþjónustu, heilsugæslu og svo lengi mætti áfram telja. Gagnasöfnun hófst tveimur árum áður en göngin voru opnuð og lauk þremur árum eftir opnun ganganna. Við notuðum fyrirliggjandi upplýsingar á borð við gögn Hagstofu Íslands og sjálfvirka umferðarteljara Vegagerðarinnar en gerðum einnig fjórar umferðarkannanir þar sem við stöðvuðum alla umferð um norðanverðan Tröllaskaga og spurðum vegfarendur um áfangastað og erindi.

Þá gerðum við spurningakannanir meðal íbúa, ferðamanna og brottfluttra. Loks tókum við manntal þar sem við bönkuðum upp á og könnuðum það hver býr í raun og veru á þessum stöðum. Við manntalið kom í ljós að 6% skráðra bæjarbúa í þjóðskrá bjuggu þar ekki og 5% til viðbótar voru minna en sex mánuði á staðnum. Í samfélögum sem glíma við fólksfækkun geta seinkaðar flutningstilkynningar og tryggð við gamla bæjarfélagið þannig leitt til þess að tölur Hagstofunnar séu ekki mjög áreiðanlegar. Í tilviki Fjallabyggðar benda manntölin til þess að fólkfækkun hafi í raun stöðvast þótt skráðum íbúum hafi fækkað frá því fyrir göng. Eftir komu ganganna höfum við verið að bera saman tölur og erum nú að leggja lokahönd á mat fyrstu áhrifa en við reiknum með að líða þurfi áratugir til þess að heildaráhrifin komi fram að fullu.“

Atvinnusókn lætur á sér standa

Í ljós kom að mikill munur er eftir árstíðum á því hver notar göngin. „Þegar lagt er upp með spurninguna fyrir hvern eru Héðinsfjarðargöngin þá er svarið mjög ólíkt eftir árstíðum. Á sumrin notar fólk hvaðanæva af landinu göngin og t.d. eru fleiri vegfarendur frá höfuðborgarsvæðinu en frá Ólafsfirði. Á veturna er yfirgnæfandi meirihluti Siglfirðingar og Ólafsfirðingar.

Þá var vonast til þess að Eyjarfjörður yrði að einu atvinnu- og þjónustusvæði með opnun Héðinsfjarðarganganna. Niðurstöður rannsóknar sýndu að hvað þjónustuhlutann varðar þá virðist það hafa gengið eftir en það er mjög mikil þjónustusókn milli byggðakjarnanna, til Akureyrar og að einhverju leyti til Dalvíkur. Sama er ekki hægt að segja um atvinnusókn en hún virðist fyrst og fremst haldast innan Fjallabyggðar. Þannig virðast Siglufjörður og Ólafsfjörður að verulegu leyti orðnir að einu vinnusóknarsvæði en lítið er um atvinnusókn til Dalvíkur eða lengra.“

Fólksfækkun talin hafa stöðvast

Annað sem vakti athygli í rannsókninni snýr að mannfjöldanum og íbúasamsetningu. „Samsetning mannfjöldans var orðin svo óhagstæð að íbúum Fjallabyggðar hefði að óbreyttu fækkað umtalsvert á næstu árum, jafnvel þótt brottflutningur hefði stöðast að fullu. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda þó til þess að fólksfækkunin hafi stöðvast með tilkomu ganganna og dreifing mannfjöldans jafnast. Þannig hefur öldrun mannfjöldans stöðvast að mestu, og ungum börnum og konum á barneignaaldri fjölgar í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Þá sýna kannanir að fólk á aldrinum 26 til 40 ára telur líklegra að það verði um kyrrt á svæðinu en fyrir göng.

Annarra að meta hvort þetta hafi verið peninganna virði

Í heild virðast göngin hafa þau áhrif að Ólafsfjörður og Siglufjörður eru orðin að einu samfélagi og mannfjöldaþróunin breyst mjög til batnaðar. Jafnframt má nú líta á Eyjafjörðinn sem eitt þjónustusvæði og mikill straumur íslenskra og erlendra ferðamanna fer um göngin á hverju sumri. Þá eru þessar lýðfræðilegu breytingar mjög jákvæðar þar sem t.d. fólki á barneignaraldri fjölgar. Það er ljóst að Héðinsfjarðargöngin voru mjög kostnaðarsöm en áhrifin hafa líka að flestu leyti verið mjög jákvæð. Okkar markmið er að kortleggja samfélagsbreytingarnar sem göngin hafa valdið. Það er svo hvers og eins að meta hvort þetta hafi verið peninganna virði,“ segir Þóroddur.

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fækkun kvenna á aldrinum 21 …
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fækkun kvenna á aldrinum 21 til 40 ára virðist stöðvast eftir opnun ganganna. Sama má segja um fækkun ungra barna á svæðinu.
Græna súlan táknar opnun ganganna en eftir þau virðist mannfjöldi …
Græna súlan táknar opnun ganganna en eftir þau virðist mannfjöldi standa í stað. Fram að því var fólksfækkunin hröð og mikil.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert