Akstur undir áhrifum lyfja og fíkniefna er vaxandi vandamál meðal vestrænna þjóða og stefnir hraðbyri í að verða jafnmikill vandi á Norðurlöndum og ölvunarakstur. Íslensk umferðarlög eru ekki nógu afdráttarlaus varðandi lækningalyf og er akstur undir áhrifum þeirra líklega algengari en gögn sýna.
Þetta er meðal þess sem fram kom á málþingi um akstur undir áhrifum lyfja og fíkniefna, sem haldið var á dögunum í Háskóla Íslands. Tilefni málþingsins var starfslok Jakobs L. Kristinssonar, prófessors emeritus við háskólann.
Jakob hefur verið leiðandi í rannsóknum í líflyfjafræði og eiturefnafræði á Íslandi og kynnti m.a. á málþinginu niðurstöður rannsóknar sinnar um akstur undir áhrifum lyfja og fíkniefna á árunum 2001-2012.
Ákvæði íslenskra umferðarlaga eru mjög afdráttarlaus hvað varðar akstur undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna en þar ríkir í reynd núllstefna (e. zero-tolerance). Lögin eru hins vegar langt frá því að vera skýr um akstur undir áhrifum lyfja, að sögn Jakobs.
Enginn alþjóðlegur staðall er til um það hvenær ástand ökumanns telst svo bágborið að hann geti ekki stjórnað ökutæki, en ljóst er að fjölmörg lyf geta dregið úr aksturshæfni. Á það fyrst og fremst við um lyf sem hafa annað hvort slævandi eða örvandi verkun á miðtaugakerfið.
Tilgangur rannsóknar Jakobs var að draga saman hvaða lyf og efni hafa oftast fundist í blóði ökumanna það sem af er þessari öld. Ofnæmislyf af 1. kynslóð, flogaveikilyf, geðrofslyf og vöðvaslakandi lyf með miðlæga verkun eru allt dæmi um lyf sem verka slævandi á miðtaugakerfið.
Lyf með örvandi verkun eru færri en meðal þeirra er t.d. metýlfenídat, sem er virka efnið í rítalíni. Morgunblaðið sagði frá því í vikunni að notkun og misnotkun á metýlfenídat er mun algengari hér á landi en annars staðar.
„Vandinn er að þessum málum fjölgar mjög mikið,“ sagði Jakob þegar hann kynnti rannsókn sína. Á annað þúsund lyfjavímuakstursmála kemur árlega upp á Íslandi, en að sögn Jakobs er afar erfitt að ná sakfellingu í þessum málum, enda hafa aðeins örfá lyfjanna sem um ræðir verið rannsökuð í því skyni að bera saman við alkóhól hver áhrifin eru á aksturfærni.
„Að mínu mati er eina leiðin að setja mörk um magn tiltekinna lyfja í blóði,“ sagði Jakob. Danir, Norðmenn og Svíar hafi sett slík mörk sem hafi einfaldað mjög meðferð mála.
Segja má að viss stökkbreyting hafi orðið á þessum málaflokki með breytingu á umferðarlögum árið 2006, en þá tók gildi nýtt ákvæði um bann við akstur undir áhrifum ólöglegra vímuefna. Mælist vottur af slíkum efnum í blóði eða þvagi telst ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki.
Jakob rannsakaði áhrif þessarar lagabreytingar og komst að því að fjöldi fíkniefnaakstursmála hefur ríflega tífaldast síðan hún tók gildi.
Á 6 ára tímabili fyrir breytinguna, frá 2001-2006 voru skráð 568 slík mál hjá lögreglu. Á jafnlöngu tímabili eftir breytingu, frá 2007-2012, voru málin 6144. Langalgengast er að amfetamín eða kannabisefni finnist í blóði.
Á sama tíma hefur hins vegar fækkað skráðum tilfellum um akstur undir áhrifum lækningalyfja. Jakob sagði alveg ljóst að sú fækkun stafaði ekki af því að notkun lyfja hefði dregist saman. „Það er ástæða til að ætla að akstur undir áhrifum lyfja sé mun algengari en gögn sýna.“
Hlutdeild lækningalyfja í akstursmálum er komin undir 10% á Íslandi en hefur til samanburðar verið yfir 60% í Noregi á síðustu árum, að sögn Jakobs.
Skýringin á þessu liggur líklega a.m.k. að hluta á rannsóknarstiginu. Jakob benti á að mjög kostnaðarsamt og tímafrekt væri að greina efni í blóði, ekki síst þegar málunum hefur fjölgað yfir þúsund á ári. Þegar lífssýni kemur til rannsóknar fylgir því beiðni frá lögreglu um að hvaða lyfjum skuli leita og er rannsóknin takmörkuð við það.
Hinsvegar er staðreyndin sú að oftar en ekki eru lækningalyf misnotkuð samhliða neyslu áfengis eða eiturlyfja. Jakob telur að lág prósenta lyfjavímuakstursmála hér geti gefið til kynna að ef öndunarpróf gefi þá niðurstöðu að ökumaður sé undir áhrifum áfengis þá sé það látið duga og blóðsýni ekki sent til að greina líka lyfjamagn.
Af lyfjum sem ætluð eru til lækninga er langalgengast að róandi lyf og svefnlyf greinist í blóði þeirra sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum. Í rúmlega helmingi tilfella, eða 225 af 412 á tímabilinu 2007-2012, voru þessi lyf notuð ásamt ólöglegum efnum. Svipað hlutfall á við um morfínlyf, þau greindust 160 sinnum í blóði og þar af hafði tæpur helmingur eða 46,9% ökumanna notað þau ásamt ólöglegum efnum.
Á sama tímabili greindust geðlyf, gegn þunglyndi eða geðrofum, 67 sinnum í blóði ökumanna. Þar af höfðu 13 notað þau samhliða ólöglegum fíkniefnum. Flogaveikilyf greindust 52 sinnum í blóði á tilfellinu og höfðu 14 notað þau ásamt ólöglegum efnum.
Hjá 30% þeirra ökumanna sem greindust með svefnlyf eða róandi lyf í blóði reyndist styrkur lyfjanna vera ofan eitrunarmarka. Í 47% tilfella höfðu ökumenn tekið meira af lyfjunum en ráðlagðan skammt og í 37% tilfella höfðu menn tekið fleira en eitt lyf úr sama lyfjaflokki.
„Það er alveg ljóst að þessir einstaklingar hafa lagt sjálfa sig og aðra í stórhættu í umferðinni,“ sagði Jakob.