Óveður á suðvesturhorni landsins

Óveður er víða á suðvesturhorni landsins. Meðal annars undir Eyjafjöllum, á Holtavörðuheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Vetrarfærð er í flestum landshlutum.

Hálkublettir og óveður er á Reykjanesvegi og Grindavíkurvegi og einnig á Sandskeiði. Snjóþekja og éljagangur er á Hellisheiði og Þrengslum en hálkublettir og óveður á Mosfellsheiði og við Þingvallavatn. Vegir fyrir austan Selfoss eru að mestu greiðfærir en óveður er undir Eyjafjöllum

Hálka eða hálkublettir eru víða á vegum á Vesturlandi. Snjóþekja er á Fróðárheiði og stórhríð, en hálka og éljagangur á Vatnaleið og Bröttubrekku. Óveður er á Holtavörðuheiði. Þá er hálka eða hálkublettir allvíða á Vestfjörðum, einkum á heiðum og hálsum. Óveður er á Kleifaheiði og hálka og skafrenningur á Hálfdán og Mikladal.

Hálkublettir eru mjög víða á Norðurlandi vestra en hálka á Þverárfjalli, í Langadal og á Vatnsskarði. Norðaustanlands er hálka á flestum vegum en þæfingsfærð á Dettifossvegi. Á Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja en að mestu autt með ströndinni að Hvalnesi. Hálka er á kafla fyrir vestan Höfn og snjóþekja fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur en annars eru vegir greiðfærir við suðausturströndina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert