Spáð stormi á landinu í dag

Spáð er suðaustan stormi eða roki þegar líður á daginn, fyrst suðvestanlands, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands frá í morgun. Vindur verður 18-25 metrar á sekúndu og talsverð slydda eða rigning sunnan- og vestanlands eftir hádegi. Hvessir um landið norðvestanvert seinni partinn með snjókomu eða slyddu.

Hins vegar lægir nokkuð sunnan- og vestanlands undir kvöld en norðaustantil upp úr miðnætti. Suðvestan 15-23 m/s verður á morgun og rigning, hvassast við suður- og vesturströndina en hægari og þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hlýnandi veður, hiti 1 til 7 stig síðdegis, en um frostmark norðaustanlands.

Vindhviður verða um eða yfir 40 metrar á sekúndu við fjöll suðvestantil og á hálendinu. Vindur verður hins vegar hægari í nótt. Suðvestan hvassviðri eða stormur verður hins vegar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert