Dómur kveðinn upp yfir íslensku stúlkunum á morgun

Frá Prag, höfuðborg Tékklands.
Frá Prag, höfuðborg Tékklands. AFP

Dómur verður kveðinn upp á morgun yfir tveimur íslenskum stúlkum sem voru handteknar í Tékklandi fyrir rétt rúmu ári. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var ákæra á hendur stúlkunum birt fyrir síðustu helgi, en þær eru ákærðar fyrir að hafa flutt rúm þrjú kíló af kókaíni til landsins.

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag, höfuðborg Tékklands, þann 7. nóvember 2012 eftir að kókaín fannst í þeirra fórum. Þær komu til landsins frá Sao Paulo í Brasilíu, en millilentu í München í Þýskalandi.

Vitnaleiðslur fóru fram í málinu í Prag í dag og samkvæmt upplýsingum mbl.is verður dómur kveðinn upp á morgun.

Kókaínið, sem samkvæmt upplýsingum mbl.is var mjög hreint, var vandlega falið inni í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda.

Stúlkurnar hafa setið í gæsluvarðhaldi í Tékklandi frá því málið komst upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert