„Finnst þetta þungur dómur“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Utanríkisráðherra segir að dómar sem féllu í Tékklandi yfir tveimur íslenskum stúlkum, sem voru ákærðar fyrir kókaínsmygl, hafi verið mikil vonbrigði. Hann segir að það sé slæmt að vita af svo ungum Íslendingum í fangelsi erlendis. Til greina kemur að fá stúlkurnar framseldar til Íslands.

„Okkur finnst þetta þungur dómur. Samkvæmt okkar upplýsingum verður þessum dómi áfrýjað,“ segir Gunnar Bragi í samtali við mbl.is.

„Þetta voru vissulega vonbrigði að þetta skyldi vera þungur dómur. En við munum að sjálfsögðu áfram gera það sem við getum til þess að sinna þeim [stúlkunum] í gegnum það kerfi sem við höfum, og Þórir [Gunnarsson, ræðismaður Íslands í Tékklandi] hefur einmitt staðið sig mjög vel í því. Við erum mjög ánægð með hans framgöngu,“ segir Gunnar Bragi.

Slæmt að vita af ungum Íslendingum í fangelsi erlendis

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru handteknar í Tékklandi í fyrra. Þær voru ákærðar fyrir að flytja inn rúm þrjú kíló af kókaíni til landsins frá Brasilíu. Önnur þeirra var í dag dæmd í sjö og hálfs árs fangelsi en hin fékk sjö ára dóm. Niðurstöðunni var áfrýjað strax í kjölfar dómsuppkvaðningarinnar.

„Það er auðvitað mjög slæmt að vita af svo ungum Íslendingum í fangelsi erlendis,“ segir Gunnar Bragi.

Nú taki við ákveðinn biðtími á meðan málið sé í áfrýjunarferli ytra. 

„Þetta hefur að okkar mati tekið ótrúlega langan tíma að komast að þessari niðurstöðu - þó við séu ekki sátt við niðurstöðuna - þá hefur það tekið alltof langan tíma í Tékklandi að ganga frá þessu. Það er því erfitt að segja til um hversu langan tíma restin tekur. Það er í sjálfu sér biðtími sem tekur við, enn og aftur,“ segir hann.

Munu athuga með framsal

Spurður hvort það komi til greina að fá stúlkurnar framseldar til Íslands og að þær muni þá taka út sína refsingu í fangelsi hér á landi segir Gunnar: „Þessi hluti heyrir undir innanríkisráðuneytið. Þannig að þegar að því kemur, sem er vitanlega ekki strax, að einhver möguleiki kunni að skapast á því, þá er það á þeirra borði [innanríkisráðuneytisins],“ segir ráðherra. 

„Ég get fullyrt það að íslensk stjórnvöld, hvort sem það er utanríkisþjónustan eða innanríkisráðuneytið, munum gera allt sem mögulega getum til þess þá að stúlkurnar geti þá verið hér heima til að afplána sinn dóm sem þær kunna að fá,“ segir Gunnar Bragi að lokum.

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru í dag dæmdar …
Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru í dag dæmdar í sjö og hálfs og sjö ára fanglesi fyrir að smygla rúmlega þremur kílóum af kókaíni til Tékklands í fyrra. Ljósmynd/celnisprava.cz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert