Frá árinu 2008 hefur útsendum starfsmönnum utanríkisráðuneytisins fækkað um 20%. Fækkunin er 25% ef miðað er við árið 2006. Heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytisins var 240 1. október 2008, en þeir voru 213 1. október sl. Fækkunin er 11,2%.
Með staðarráðnum starfsmönnum er átt við sendiherra, sendifulltrúa og aðra starfsmenn sem sendir eru til starfa erlendis frá utanríkisráðuneytinu. Þeir voru 67 árið 2008 en eru 54 í dag. Við sendiráðin starfa einnig starfsmenn sem búa á staðnum. Þeir voru 74 árið 2008, en eru 67 í dag.
Í dag starfa 89 starfsmenn á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, en þeir voru 94 árið 2008.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu var gerð krafa um 7% sparnað hjá ráðuneytinu árið 2009, en sparnaðurinn hefði numið 26,4%. Árið eftir hefði verið gerð krafa um 10% sparnað, en niðurstaðan hefði orðið 16,4% sparnaður. Árið 2011 hefði sparnaðurinn numið 9,2% og 3,6% í fyrra. Í ár er gerð krafa um 1,7% sparnað hjá utanríkisráðuneytinu og 1,5% á næsta ári.
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar leggur til sparnað í utanríkisþjónustunni. Sunna Gunnars Marteinsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að stjórnendur utanríkisráðuneytisins séu ánægðir með tillögur hagræðingarhópsins. Sumar þeirra séu að komast til framkvæmda í ráðuneytinu nú þegar.
Meðal tillagna hópsins er að utanríkisráðherra sé falið að láti meta útgjaldaþörf í ljósi breyttra áherslna. Sérstaklega á að meta þörf á fjölda stöðugilda innanlands og erlendis með það að markmiði að fækka stöðugildum og ná fram sparnaði.
Sunna segir að vinnan við að meta þetta sé þegar hafin innan ráðuneytisins. Unnið sé að endurskoðun skipulags og starfsemi ráðuneytisins og hafi utanaðkomandi sérfræðingur verið fenginn til aðstoðar. „Horft er til breyttra áherslna m.a. í framhaldi af því að gert var hlé á aðildarviðræðum. Vinna við þessa tillögu er hafin og er áætlað að þessu ljúki fyrir árslok 2013.“
Hagræðingarhópurinn leggur einnig til að umfang og starfsemi Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins verði endurmetin. Sunna segir að í lok þessa árs mun starfsmönnum þýðingarmiðstöðvarinnar hafa fækkað um nærri 20 frá því í september. Áfram verði skoðað hvernig best verður staðið að rekstri þýðingarmiðstöðvarinnar m.a. vegna EES-samningsins.
Sunna segir að ekki sé gert ráð fyrir því í fjárlögum að hlutfall til þróunaraðstoðar hækki í samræmi við fyrri samþykkt alþingis, heldur standi í stað. „Þannig hægjum við á hækkun hlutfalls til þróunaraðstoðar, þó áfram sé stefnt að því að Ísland fari í 0,7%.“