Íhugar að krefjast frávísunar

Hannes Smárson
Hannes Smárson mbl.is/Ómar Óskarsson

Gísli Guðni Hall, verjandi Hannesar Smárasonar, er að skoða hvort hann muni leggja fram frávísunarkröfu í máli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni. Hannes mætti ekki við þingfestingu málsins í morgun.

Meginreglan er að sakborningur mæti við þingfestingu, en hann er þó ekki skyldugur að gera það. Hannes mun væntanlega taka afstöðu til ákærunnar við fyrirtöku málsins síðar í vetur.

Þinghaldið í morgun var stutt. Málið verður næst tekið fyrir í byrjun janúar og þá liggur fyrir hvort krafist verður að málinu verði vísað frá.

Ákærður fyrir fjárdrátt

Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa 25. apríl 2005 sem stjórnarformaður FL Group, dregið sér af fjármunum FL Group, 2,875 milljarða króna sem hann ráðstafaði til Fons.

Í ákærunni segir að þann 22. apríl 2005 lét Hannes millifæra 46.500.000 Bandaríkjadali af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York í Bandaríkjunum inn á bankareikning FL Group í Kaupþingi banka í Lúxemborg en þann reikning hafði Hannes látið stofna 17. apríl 2005.

Þann 25. apríl 2005 var 45.864.241 Bandaríkjadölum svo skipt yfir í 2,875 milljarða íslenskra króna. Og sama dag var sú upphæð millifærð yfir á bankareikning Fons í sama banka. Sama dag var fjárhæðinni skipt yfir í 260.889.292 danskar krónur og 375.000.000 danskar krónur svo millifærðar af sama reikningi Fons yfir á bankareikning þáverandi eiganda Sterling Airlines.

Þá segir í ákæru að millifærsla Hannesar hafi verið framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra meðlima í stjórn FL Group.

Í ákæru segir að engu skipti varðandi refsinæmi að fjármunirnir hafi skilað sér aftur til FL Group, en það gerðist meðal annars vegna þrýstings frá þáverandi forstjóra FL Group. Fons varð að taka lán til að geta endurgreitt Fl Group fjármunina.

Til vara er Hannes ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið FL Group verulegri fjártjónshættu með umræddri millifærslu.

Andri Fannar Bergþórsson og Finnur Vilhjálmsson frá embætti sérstaks saksóknara …
Andri Fannar Bergþórsson og Finnur Vilhjálmsson frá embætti sérstaks saksóknara í máli gegn Hannesi Smárasyni mbl.is/Rósa Braga
Gísli Guðni Hall lögfræðingur Hannesar Smárasonar.
Gísli Guðni Hall lögfræðingur Hannesar Smárasonar. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert