Minnast fórnarlamba umferðarslysa

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn 17. nóvember. Haldin verður minningarathöfn í Reykjavík við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11:00

Landsmenn eru hvattir til að nota þennan dag til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og þeim sem hafa slasast en jafnframt íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi í umferðinni, segir í fréttatilkynningu frá Samgöngustofu.

Um það bil 4.000 manns láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í  alvarlegu slysi í umferðinni.  

Er það þriðja árið í röð sem slíkur minningardagur er haldinn formlega hér á landi en frá árinu 1993 hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað þriðja sunnudag nóvember þessu málefni.

Það er ekki aðeins að dagurinn sé tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur jafnframt skapast sú venja hér á landi að heiðra á þessum degi fulltrúa þeirra starfsstétta sem koma að björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys eiga sér stað. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun fyrir hönd þjóðarinnar flytja þessum starfsstéttum þakkir fyrir það mikilvæga og óeigingjarna starf sem  þær sinna. Við athöfnina koma saman fulltrúar hjúkrunarfólks, lækna, lögreglu, slökkviliðs, sjúkraflutningamanna, Landhelgisgæslu, rannsóknarnefndar samgönguslysa og fleiri hlutaðeigandi ásamt aðstandendum og gestum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert