Sakaður um brot á skilaskyldu á gjaldeyri

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. mbl.is/Ómar

Rannsókn Seðlabanka Íslands á viðskiptum Samherja beinast m.a. að því hvort fyrirtækið hafi brotið reglur um skilaskyldu á gjaldeyri. Þetta upplýsir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, en hann var í síðustu viku kallaður í skýrslutöku hjá Sérstökum saksóknara.

Rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja hófst með húsleit hjá fyrirtækinu fyrir nær tveimur árum. Þorsteinn segir í bréfi sem hann skrifaði starfsmönnum sínum að hann fagnaði að nú skuli vera komin hreyfing á málið.

„Hins vegar þótti mér auðvitað erfitt að þurfa að mæta í þessa skýrslutöku hjá Sérstökum saksóknara með réttarstöðu manns sem grunaður er um afbrot. Það á við um mig eins og ykkur öll; við vinnum okkar störf af heiðarleika og samviskusemi. Annað hvarflar ekki að neinu okkar.

Við skýrslutökuna kom betur í ljós en áður hvað Samherji á að hafa brotið af sér að mati Seðlabanka Íslands. Annars vegar er um að ræða verðlagningu á fiskafurðum til útflutnings og hins vegar ætluð brot á skilaskyldu á gjaldeyri í fyrirtækjum tengdum Samherja erlendis  Þessi meintu brot eru ólík að eðli og umfangi,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að Samherji hefði látið vara fram ítarleg rannsókn á ásökunum um verðlagningu á fiskafurðum.„ Satt að segja hvarflar oft að mér að þessi þáttur rannsóknar Seðlabankans sé tilbúningur einn, til þess gerður að finna tilefni til að ráðast inn á skrifstofur okkar í leit að öðrum sakarefnum. Svo rangir voru útreikningarnir og langsóttar ásakanirnar.

Síðari hluti rannsóknarinnar snýst um brot á skilaskyldu á gjaldeyri hjá fyrirtækjum sem tengjast okkur erlendis. Umfang þessa hlutar rannsóknarinnar er mun meira. Ég fæ ekki betur séð en að röksemdafærsla Seðlabankans sé sú að erlendu félögin séu í raun íslensk og eigi því að falla undir reglur um skil á gjaldeyri.

Þannig er t.a.m. litið á pólska fyrirtækið Atlantex, sem er í eigu Samherja, sem íslenskt fyrirtæki, þrátt fyrir að starfsemi þess hafi ætíð verið í Póllandi. Fyrirtækið fær úthlutaðar aflaheimildir innan ESB sem eingöngu fyrirtæki með starfsemi innan sambandsins hafa aðgang að. Þessi túlkun Seðlabankans á gjaldeyrislögunum verður að teljast nokkuð rúm og í raun ótrúleg, enda um að ræða fyrirtæki sem er að öllu leyti með starfsemi innan annars erlends ríkis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert