Ólafur Ingvar Guðjónsson varð 17 ára gamall valdur að banaslysi í umferðinni þegar hann lenti í árekstri við 22 ára gamla móður árið 1998. Ólafur Ingvar ók bíl sínum undir áhrifum áfengis.
„Héðan á ég alveg hræðilegar minningar. Fyrir 15 árum vaknaði ég með vinstri hnéskelina í tíu molum og sú hægri var í fimm, með opið beinbrot, fimm brotna hryggjartinda og það vantaði í mig framtennurnar,“ sagði Ólafur Ingvar við minningarathöfnina í morgun, þar sem minnst var fórnarlamba umferðarslysa.
„En þetta byrjar ekki einu sinni að lýsa þeim þjáningum sem ég hafði valdið sjálfum mér og þessum fjölskyldum sem lentu í slysinu. Ekki með nokkru móti. Ég hélt að það myndi reddast þegar ég keyrði bara fullur heim, ég var 17 ára, ég hélt það myndi bara reddast,“ sagði Ólafur Ingvar.
„Það er ótrúlegt að svona hugsun viðgangist í samfélaginu. Bílar eru alveg nógu lífshættulegir fyrir þó svo að fólk sé ekki að keyra fullt eða senda SMS eða í spyrnu eða hvað það nú er. Ég hugsa oft til þess hvort bílar séu þess virði í samfélaginu, þegar svona margir þjást á hverju ári.“
Hann þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hjálpuðu honum að ná sér eftir slysið, og hvað þau gera fyrir alla í starfi sínu og nafngreindi sérstaklega Brynjólf Jónsson lækni, og Rúdolf „áfallahjálpara.“
„Hann var sá fyrsti sem sannfærði mig um að þetta væri fyrst og fremst slys, þó svo að ég vissi mætavel að það var mér að kenna, þá var þetta slys engu að síður. Bara að heyra þetta frá öðrum og að finna bandamenn hérna á þessum tíma, það bjargaði lífi mínu,“ sagði Ólafur, og þakkaði aftur kærlega fyrir sig. „Þið eruð frábær.“
Ólafur kom aftur í pontu eftir að hann hafði lokið máli sínu og vakti sérstaklega athygli á því viðhorfi sem virðist ríkja í samfélaginu gagnvart ölvunarakstri. „Það er rosalegt samfélagsálitið á ölvunarakstri. Það eru menn sem fara með þetta sem gamanmál, gamansögur, og fólk hlær. Ég hef oft lent í því að vera í vinnuskúrum þar sem fólk þekkir kannski ekki mína sögu og það segir: „Djöfull var ég fullur í gær, ég man ekki einu sinni hvernig ég komst heim, en bíllinn var á sínum stað.“ Og menn hlæja,“ sagði Ólafur Ingvar.
„Svo lendir einhver í slysi og verður einhverjum að bana. Þá standa allir og benda. „Helvítis fífl og aumingi og þú átt ekkert gott skilið“ og allt eftir því. Það verður að breyta þessum hugsunarhætti.“