Sextán hæðir á átján mánuðum

Byrjað er að reisa hótel á Höfðatorgsreitnum.
Byrjað er að reisa hótel á Höfðatorgsreitnum. mbl.is/Styrmir Kári

Framkvæmdir eru hafnar við þriðja turninn á Höfðatorgi en þar á að rísa sextán hæða hótel. Stefnt er að hótelið taki til starfa sumarið 2015 og er byggingartíminn því rúmir átján mánuðir. Það er byggingarfyrirtækið Eykt sem byggir hótelið og starfa nú um 60 manns við bygginguna en jarðvegsvinnu á að ljúka fyrir áramót. Stærstan hluta byggingartímans er gert ráð fyrir að um 200 til 300 manns vinni við bygginguna.

Heildarkostnaður við bygginguna er sjö milljarðar króna og segir Hallgrímur Magnússon, byggingarstjóri Höfðatorgs, að veltan við hana verði um 300 milljónir á mánuði allt þar til framkvæmdum verður lokið 1. júní 2015.

Í júlí var skrifað undir samning um að hefja framkvæmdir og í kringum verslunarmannahelgina fékk Eykt byggingarleyfi á lóðinni. Stefnt er að því að hótelið verði tilbúið í byrjun sumars árið 2015 og fullur rekstur hefjist þar þá. Að sögn Hallgríms verða 342 herbergi á hótelinu sem verður þrjár stjörnur plús.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is eru það Íslandshótel sem munu reka hótelið undir heitinu Fosshótel Reykjavík. Þar verður eignarhaldið í höndum eignarhaldsfélagsins Höfðahótel en það er í eigu Péturs Guðmundssonar, forstjóra Eyktar, og Íslandsbanka.

Um er að ræða gríðarlega stórt verkefni, en fyrirhugað er að hótelið verði rúmir 17 þúsund fermetrar að stærð, á 16 hæðum. Að auki verður byggt við bílageymslu Höfðatorgs, alls um 9 þúsund fermetrar þar sem tæplega 300 bílastæði munu bætast við þau stæði sem þegar eru á svæðinu.

Bygging hótelsins hefur verið í burðarliðnum um nokkra hríð en árið 2010 voru fyrirhugaðar framkvæmdir settar í salt. Samkvæmt skipulagi munu sex byggingar rísa á Höfðatorgsreitnum. Þegar er búið að byggja tvær þeirra. Önnur hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar og nokkurra fyrirtækja en í hinni er skrifstofu- og fyrirtækjarekstur.

Unga fólkið vill vinna miðsvæðis ekki í úthverfum

Útleiga á Höfðatorgsreitnum fór hægt af stað í upphafi enda hrunið í algleymingi. En nú er allt húsnæði í turnunum tveimur í útleigu.  Hugmyndavinna að þeim þremur turnum sem ekki er byrjað á er hafin en að sögn Hallgríms er ekki ljóst hvenær þeir verða byggðir. Hann segir að fyrirtæki sæki í að vera með starfsemi á þessu svæði, skammt frá miðborginni, og það sé ljóst að ungt fólk sækir í að starfa miðsvæðis. Meðal annars til þess að geta komist í og úr vinnu á hjólum eða gangandi. Ungt fólk hafi hreinlega ekki áhuga á að vinna í úthverfunum líkt og margir héldu fyrir nokkrum árum.

Að sögn Hallgríms var lokið við að sprengja fyrir turninum hinn 8. nóvember sl. og hefur grjótinu sem kemur upp úr grunninum verið ekið í Kópavogshöfn þar sem það mun nýtast í landfyllingu.

Eru á tánum og allt verður að ganga upp

Spurður um þennan stutta byggingartíma segir Hallgrímur að það sé ljóst að allt verði að ganga upp en Eykt ætli sér að standa við tímasetninguna 1. júní 2015 enda hafi fyrirtækið skuldbundið sig til þess. „Það er því alveg ljóst að við erum á tánum og verðum það örugglega allan tímann,“ segir Hallgrímur.

Hann segir að það hafi gengið framar vonum að fá mannskap í vinnu þrátt fyrir að mjög margir góðir iðnaðarmenn séu nú búsettir í Noregi. „En á einhverjum tímapunkti verðum við hjá Eykt og undirverktakar okkar að leita eftir erlendu vinnuafli enda stór hluti af íslenskum smiðum búsettur í Noregi. Hins vegar höfum við verið í sambandi við iðnaðar- og tæknifólk sem starfar í útlöndum og það hefur tekið vel í að koma hingað heim að vinna,“ segir Hallgrímur.

Veðrið spilar stórt hlutverk

Íslensk veðrátta er ekki þekkt fyrir að vera fyrirsjáanleg og segir Hallgrímur að veðrið spili stóra rullu í áætlunum Eyktar við bygginguna. Verkáætlunin verður endurskoðuð í vor, meðal annars að teknu tilliti til þess hvernig viðrar í vetur.

Það eru PK arkitektar og Verkís  sem hanna turninn sem er eins og áður sagði sá þriðji af sex sem gert er ráð fyrir á Höfðatúnsreitnum. Þeir önnuðust einnig hönnun hinna turnanna tveggja.  (PK arkitektar en ekki Verkís).

Hallgrímur segir að allar byggingunum þrjár séu mismunandi en samt allar í sama anda. Við bygginguna núna er öðruvísi farið að en yfirleitt er steypuvinnan kláruð áður en byrjað er á vinnu við innréttingar og annað sem undirverktakar taka að sér. En þar sem tíminn er knappur þá er ekkert slíkt í boði og allt komið á fullt við að leita eftir tilboðum í einstaka verkþætti.

Aðspurður segir Hallgrímur enga ástæðu til annars en að byggingaráætlunin gangi upp en mbl.is mun fylgjast með turninum, allt frá holu til 16 hæða byggingar, rísa bæði í máli og myndum.

Stefnt er að því að reisa hótelið á átján mánuðum.
Stefnt er að því að reisa hótelið á átján mánuðum. mbl.is/Styrmir Kári
Undirbúningur hafinn - þessi mynd var tekin af Höfðatorgsreitnum 11.september …
Undirbúningur hafinn - þessi mynd var tekin af Höfðatorgsreitnum 11.september 2013 mbl.is/Golli
Höfðatorg grunnur að nýju hóteli - frá því í júlí …
Höfðatorg grunnur að nýju hóteli - frá því í júlí 2013 mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka