Ófærð á Suðurnesjum

Mikið hefur snjóað á Suðurnesjum í nótt
Mikið hefur snjóað á Suðurnesjum í nótt mbl.is/Árni Sæberg

Lögregla og björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa haft í nægu að snúast í nótt vegna ófærðar en mikið hefur snjóað á Suðurnesjum. Þar er víða ófærð en Reykjanesbrautin er orðin fær, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut en hálka og éljagangur á Grindavíkurvegi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Mjög óvanalegt er að það snjói svo mikið á Suðurnesjum líkt og var í nótt en þar bókstaflega kyngdi niður snjó í gærkvöldi og nótt. Eins hefur verið talsverður vindur þannig að skaflar hafa hlaðist upp.

Einhverjar tafir urðu á flugumferð á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi vegna snjókomunnar en flug er samkvæmt áætlun nú í morgunsárið.

Lögreglan biður ökumenn að fara varlega í umferðinni en fjölmargir hafa fest sig í ófærðinni.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðvestan 5-13 m/s. Víða él N- og V-til en úrkomuminna í dag. Suðvestan 8-13 og snjómugga vestast í kvöld en hægari vestanátt og bjartviðri austanlands. Frost 0 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert