„Ef opna á skóladyrnar fyrir trúarfræðslu í ríkari mæli en nú er, þá þarf að opna þær dyr upp á gátt. Það þýðir aukin trúvæðing samfélagsins. Ekki held ég að hún yrði til góðs.“ Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, og vitnar til ræðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, núverandi innanríkisráðherra.
Ögmundur gerir ræðu Hönnu Birnu á nýafstöðnu Kirkjuþingi að umtalsefni á vefsvæði sínu. Hann segist sammála henni um að jólasálmar og boðskapur um kærleika skaði engan. „Þvert á móti er að mínu mati ágætt að næra gamlar menningarhefðir eins og þær birtast í jólahaldi okkar. Og siðfræðiboðskapur trúarbragða og heimspeki eiga einnig að mínu mati að eiga greiðan aðgang að uppvaxandi æsku. En það skiptir máli á hvaða forsendum það er gert.“
Hann vitnar í tiltekin ummæli í ræðu Hönnu Birnu og spyr hvort ráðherrann vilji auka kristinfræðikennslu í skólum eða hvort hún sé að boða aukinn aðgang trúarsafnaða almennt að skólastarfi - og þá væntanlega einnig þeirra hópa sem byggja mannræktarstarf sitt á trúleysi. „Auðvitað getur það verið fróðlegt, menntandi og upplýsandi að fá mismunandi trúarsöfnuði til að kynna boðskap sinn í skólum. Samkeppni trúfélaga um sálir okkar þykir mér hins vegar ekki eftirsóknarverð.“
Hann segir að Þjóðkirkjan og ríkisvald þurfi að sýna hófsemi og minnast þess að trúfrelsi verði að virða í reynd.