„Þetta var generalprufa fyrir EM; eigum við ekki að segja það,“ sagði Styrmir Gíslason, formaður stuðningsmannafélagsins Tólfunnar, sem var að vonum vonsvikinn eftir leik Íslands og Króatíu í kvöld.
Félagar í Tólfunni og aðrir stuðningsmenn landsliðsins komu saman á Ölveri í kvöld til að fylgjast með leiknum og styðja við bakið á landsliðinu.
Styrmir sagði að Króatarnir hefðu í kvöld átt einn sinn allra besta leik í undakeppninni fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Brasilíu á næsta ári. Á sama tíma hefði íslenska liðið átt einn sinn slakasta leik.
„Þetta var ekki alveg skrifað í skýin - þetta var generalprufa,“ segir Styrmir og á við Evrópumeistaramótið í knattspyrnu sem verður haldið eftir tvö ár.
Aðspurður segir Styrmir að það sé í raun ótrúlegt afrek að íslenska landsliðið hafi verið í þessari stöðu. „Við eigum auðvitað að vera að rifna úr stolti. Auðvitað er maður núna pínu svekktur, en ég er ekkert smá stoltur af þessum strákum og íslensku stuðningsmönnunum öllum. Þetta var frábær undankeppni og hver hefði trúað því að við færum þetta langt,“ sagði Styrmir.
Líkt og sést í meðfylgjandi myndskeiði kveiktu stuðningsmennirnir í blysum og sungu baráttusöngva til stuðnings sinna manna að leik loknum.