Kröfu Íbúðalánasjóðs hafnað

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogu skuldar um 8 milljarða. Unnið er …
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogu skuldar um 8 milljarða. Unnið er að nauðasamningum, en ef þeir verða ekki samþykktir fer heimilið í gjaldþrot. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í máli tveggja einstaklinga sem eiga kröfur á hendur hjúkrunarheimilinu Eir.

Þeir sem höfðuðu málið eiga fjárkröfur á Eir. Í báðum tilvikum lögðu íbúar öryggisíbúða á Eir fram 100% framlag þegar þeir fluttu inn í íbúðirnar. Eftir að þeir skiluðu íbúðunum óskuðu þeir eftir að fá framlagið greitt í samræmi við samning sem íbúarnir gerðu á sínum tíma. Eir varð ekki við þeirri beiðni, enda var Eir þá komin í greiðslustöðvun.

Íbúarnir krefjast þess að sýslumaður afmái veðskuldabréf á öryggisíbúðir Eirar við Hlaðhamra í Mosfellsbæ og við Fróðengi í Grafarvogi úr þinglýsingarbók þar sem ekki hafi verið sótt um leyfi til sýslumanns til veðsetningar. Íbúðalánasjóður krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi þar sem íbúarnir hefðu ekki lögvarða hagsmuni í málinu.

Héraðsdómur féllst ekki á þessa kröfu. Málið verður því tekið til efnislegrar meðferðar, þ.e.a.s. ef Íbúðalánasjóður vísar úrskurði héraðsdóms ekki til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert