Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar sent 10 milljónir króna til neyðaraðgerða vegna hamfaranna á Filippseyjum. Dreifing hjálpargagna er í fullum gangi en Rauði krossinn hefur skuldbundið sig til að aðstoða um 500.000 manns. Um 660.000 eru talin hafa misst heimili sín.
Orri Gunnarsson verkfræðingur heldur til Filippseyja í dag þar sem hann mun starfa með neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins á Samareyjum. Karl Júlísson hélt á vettvang í gær, en hann er einn reyndasti öryggisnálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hefur yfirumsjón með öryggismálum í neyðaraðgerðum á Filippseyjum. Tíu íslenskir sendifulltrúar eru nú í biðstöðu, og hefur Rauði krossinn á Íslandi jafnframt verið beðinn um að útvega starfsfólk á næstu vikum fyrir neyðarsveitir sem sinna almennri heilsugæslu, mæðra- og ungbarnavernd, segir í frétt frá Rauða krossinum.
Framlag einstaklinga í gegnum söfnunarsíma og bankareikninga Rauða krossins nemur nú um 7 milljónum króna, og eins hefur Rauða krossinum borist framlög frá Icephil, félagi Filippseyinga á Íslandi. Fólk er hvatt til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti á netinu raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-0012, kt. 530269-2649.
Rauði krossinn á Íslandi aðstoðar þá sem misst hafa samband við ástvini á Filippseyjum við að nýta leitarþjónustu Filippeyska Rauða krossins. Ein filippeysk fjölskylda á Íslandi hefur komist í samband við ættingja sína á hamfarasvæðinu fyrir tilstilli Rauða krossins, og er fólki sem leitar ástvina sinna bent á að nýta sér þjónustu Rauða krossins.
Fyrirspurnir eru sendar beint á Rauða krossinn á Filippseyjum, en ekki hefur verið hægt að taka á móti rafrænum beiðnum þar sem fjarskiptakerfi liggur meira og minna niðri á þessum slóðum. Leitarþjónusta Rauða krossins hefur verið starfrækt í 140 ár, fyrst vegna styrjaldarátaka en nú í auknum mæli í kjölfar náttúruhamfara, segir í tilkynningunni.