Stjórnunarkostnaður smærri stofnana mikill

Frá fundinum í morgun. Sigurður Helgi í ræðustól.
Frá fundinum í morgun. Sigurður Helgi í ræðustól. mbl.is/Hjörtur

Kostnaður vegna yfirstjórnar og sameiginlegs stofnþjónustukostnaðar er mun hærri hlutfallslega hjá smærri stofnunum á vegum hins opinbera en hjá stærri stofnunum og ef um er að ræða mjög smáar stofnanir getur sá kostnaður numið allt að 30-40% af heildarrekstrarkostnaði á meðan hann er um það bil 10% hjá stærri stofnunum.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi sem Sigurður Helgi Helgason, skrifstofustjóri skrifstofu stjórnunar og umbóta hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, á fundi sem fram fór í morgun á Grand Hóteli í Reykjavík um sameiningu og endurskipulagningu ríkisstofnana. Fundurinn var haldinn í kjölfar þess að tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar voru birtar en í þeim er meðal annars gert ráð fyrir ýmsum sameiningum stofna á vegum hins opinbera.

Mæta þarf þörfum og kröfum hvers tíma

Sigurður, sem var starfsmaður hagræðingarhópsins, sagði ennfremur umbætur undanfarinna ára hefðu einkum beinst að því að bæta almennt stjórnun stofnana og stuðla að bættum árangri á sama tíma og krafa hefði verið gerð um hagræðingu í rekstri vegna lækkandi fjárveitinga. Mun minna hefði hins vegar verið horft til kerfislægra og skipulagslegra ágalla ríkisrekstrarins.

Hann benti á að miklar samfélagslegar breytingar hefðu orðið frá því að helstu þjónustu- og stjórnsýslukerfi ríkisins hefðu verið mótuð og að skipulag, rekstur og þjónusta ríkisins hefði ekki tekið nægt tillit til þeirra breytinga. Nauðsynlegt væri að skoða uppbyggingu ríkiskerfisins með gagnrýnum hætti og gera nauðsynlegar breytingar í því skyni að mæta þörfum og kröfum samfélagsins á hverjum tíma.

Horfa þarf til ríkiskerfisins sem heildar

Varðandi tillögur hagræðingarhópsins sagði Sigurður að ekki væri nægjanlegt að skoða þær einar sér heldur þyrfti sömuleiðis að kanna forsendur þeirra. Ítarlegar úttektir og greiningar lægju að baki mörgum þeirra en í öðrum tilfellum þyrfti að leggja í greiningu til þess að kanna kosti hugsanlegra breytinga. Þá hefði talsverður hluti tillagnanna þegar verið tekinn til skoðunar í ráðuneytunum.

Sigurður sagði ennfremur að ekki væri heldur nóg að horfa til einstakra stofnana heldur yrði að líta á heildarskilvirkni ríkiskerfisins. Fjöldi stofnana gerði samhæfingu erfiða og yfirstjórn ráðuneyta ómarkvissa. Þá stæðist fjöldi stofnana illa kröfur ríkiskerfisins um faglega stjórnun. Þannig gæti viðskiptakostnaður samstarfs á milli stofnana verið hár.

Taka þarf tillit til ólíkra sjónarmiða

Að lokum lagði Sigurður áherslu á mikilvægi góðs undirbúnings þegar farið væri í það verkefni að sameina stofnanir. Það segði sig sjálft að góður undirbúningur yki líkurnar á góðum árangri. Þar þyrfti að huga að mörgu eins og ólíkum pólitískum sjónarmiðum, ólíkum sjónarmiðum starfsmanna, hagsmunaaðila og notenda þjónustunnar. Þá væri hætta á því að of mikilli orku væri eytt á fyrstu stigum sameiningar og þau síðustu fyrir vikið vanrækt. Jafnvægi þyrfti að vera í þeim efnum og markviss vinnubrögð.

Fundurinn var á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Ríkisendurskoðunar, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Félags stjórnsýslufræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert