Á annan tug manna mættu fyrir framan innanríkisráðuneytið í hádeginu í dag til að mótmæla brottvísun hælisleitandans Tony Omos. Sjálfur var hann hvergi sjáanlegur enda fer hann huldu höfði og leitar lögregla hans. Mótmælin voru skipulögð af samtökunum No Borders.
Eins og greint var frá á mbl.is í morgun stendur til að vísa Omos úr landi en umsókn hans um hæli hefur verið hafnað. Yfirskrift mótmæla No Borders var „Mótmæli gegn sundrun flóttafjölskyldu frá Nígeríu“ en Omos hefur borið við að hann eigi von á barni með nígerískri konu sem einnig er hælisleitandi. Á samfélagsvefnum Facebook höfðu í morgun 157 manns boðað komu sína í mótmælin.
Í greinargerð talsmanns Omos til innanríkisráðuneytisins vegna kröfu um frestun á réttaráhrifum, sökum þess að hann ætli að bera málið undir dóm, kemur fram að Omos sé í sambandi með íslenskri konu. Einnig að hann hafi ásamt fleirum stöðu grunaðs manns í tveimur umfangsmiklum málum, mansalsmálum, sem upp komu í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Omos haldi fram sakleysi sínu og hafi ekki sætt áframhaldandi rannsókn. Lögreglan hafi ekki lokið rannsókn málanna og Omos bíði þess að geta hreinsað nafn sitt. Því þurfi hann að vera hér á landi.
Ráðuneytið hafnaði fyrir helgi kröfunni. Í rökstuðningi ráðuneytisins segir að vegna frásagnarinnar um að hann sé hugsanlega faðir barns annars hælisleitanda sé á það bent að faðernisviðurkenning fari fram í kjölfar fæðingar barns. Í hælismáli konunnar sem á von á barni sé því svo borið við að hún sé mansalsfórnarlamb. Og raunar hafi Omos sjálfur haldið því fram í viðtali að hann eigi ekki barnið, þannig að hann sé tvísaga hvað það varðar.
Þá er á það bent að Omos sæti ekki áframhaldandi rannsókn lögreglu og því verði ekki fallist á að ástæða sé til að fresta réttaráhrifum svo hann geti hreinsað nafn sitt.
Ennfremur segir að Omos geti borið mál sitt undir íslenska dómstóla þó svo hann sé ekki sjálfur á landinu og fordæmi séu fyrir því. Þá njóti hælisleitendur viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Sviss.