„Málið komið í djúpu kistuna“

Lögmenn stefndu í málinu.
Lögmenn stefndu í málinu. mbl.is/Golli

Skaðabótamáli slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding og sjö fyrrverandi stjórnarmönnum Glitnis banka var frestað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Úrskurður dómara er kæranlegur og verður það að öllum líkindum Hæstaréttar að taka endanlega ákvörðun um frestunina.

Fyrirtaka fór fram í málinu í morgun og eftir að dómari gaf lögmönnum tækifæri til að tjá sig um ágreiningsefnið kvað hann upp úrskurð sinn. 

Meðal lögmanna sem tjáðu sig var Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeir Jóhannessonar. Hann sagði það afstöðu síns skjólstæðings að efni tilkynningar slitastjórnar Glitnis til sérstaks saksóknara komi allt fram í stefnu skaðabótamálsins. Hann sagðist telja að hún ein og sér eigi ekki að hafa þau áhrif að fresta eigi málsmeðferðinni.

Jakob R. Möller, verjandi Jóns Sigurðssonar, tók undir með Gesti og ítrekaði sjónarmið sín frá því í gær um að ekkert sé komið fram í málinu sem bendi til að rannsókn sé yfirleitt hafin, nema staðfesting sérstaks saksóknara. Þannig hafi enginn stefndu verið kvaddur til skýrslutöku. „Er málið þá ekki komið í djúpu kistuna hjá sérstökum saksóknara og getum við þá vænst að heyra næst af því árið 2015 eða 2016?“

Hann sagði að ef málinu yrði frestað yrði að setja þrýsting á sérstakan saksóknara að upplýsa um hvar málið sé statt.

Þá benti lögmaður Björns Inga Sveinssonar, Pétur Þór Sigurðsson, á að í tilkynningu slitastjórnar Glitnis til Tryggingamiðstöðvarinnar 5. apríl 2011 komi fram að slitastjórnin hafi þá tilkynnt sérstökum saksóknara að hún telji að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum hegningarlaga. Hann sagði að í ljósi þess að umbjóðandi hans hafi ekki heyrt neitt af þeirri rannsókn sé ekki hægt að líta öðruvísi á en að hún hafi verið felld niður.

Lögmenn slitastjórnar Glitnis voru spurðir nánar út í þessa fyrri tilkynningu en þeir gátu ekki upplýst um afdrif hennar. „Við þurfum tíma til að skoða það,“ sagði Sveinn Jónatansson en aðallögmaður slitastjórnarinnar í málinu, Hróbjartur Jónatansson, er staddur erlendis.

Þeir voru einnig spurðir að því hvers vegna það leið eitt og hálft ár frá því stefnt var í skaðabótamálinu þar til tilkynning var send til sérstaks saksóknara og vísuðu þeir þeirri spurningu til Hróbjarts.

Einnig var rætt um hvaða áhrif það gæti haft á málið ef sérstakur saksóknari felli málið niður. Lögmenn slitastjórnarinnar sögðu að það gæti haft vigt í málinu í báðar áttir, eftir því hver niðurstaðan verður. Ekki sé þó horft til þess að málið verði fellt niður verði niðurstaðan stefndu í vil.

Eftir stutt hlé kvað dómari upp þann úrskurð að málinu sé frestað um óákveðin tíma.

Stefnan vegna lánveitinga til Baugs

Slitastjórn Glitnir höfðaði málið gegn Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og fyrrverandi stjórn Glitnis, en í henni sátu Þorsteinn M. Jónsson, eigandi Vífilfells, Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group, Pétur Guðmundarson, lögmaður hjá Logos, Björn Ingi Sveinsson, forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.

Slitastjórnin telur að ákvarðanatöku við 15 milljarða lánveitingu til Baugs hafi verið ábótavant og að tjón Glitnis af lánveitingunni sé um 6,5 milljarðar króna. Baugur nýtti lánið til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group, en Baugur var þá stærsti eigandi FL Group

Í tilkynningu slitastjórnarinnar til sérstaks saksóknara sem send var í apríl síðastliðnum er greint frá því að hún telji að þarna hafi verið um umboðssvik að ræða. Ekki liggur fyrir hversu margir hafa stöðu sakbornings í málinu.

Frétt mbl.is: Heyrðu af rannsókn um helgina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert