Hægt að hringja frítt til Filippseyja

Afp

Vodafone hefur ákveðið að öll símtöl úr farsímum á Íslandi til Filippseyja verði endurgjaldslaus frá miðnætti 20. nóvember til 10. desember nk. en fjölmargir hér á landi hafa sterk tengsl við Filippseyjar og hafa fylgst með hörmungunum þar af vanmætti. Erfitt hefur verið að komast í samband við mörg svæði landsins og margir hafa því litlar sem engar upplýsingar um afdrif ættingja og vina, segir í tilkynningu frá Vodafone.

Hægt verður að hringja frítt bæði úr farsímum í áskrift og frelsi og skiptir engu hvort hringt er í landlínunúmer eða farsímanúmer. Af tæknilegum ástæðum er hins vegar ekki hægt að bjóða að hringt sé frítt úr heimasíma.

Vodafone vill nota tækifærið og minna alla sem vilja leggja hjálparstarfinu lið á hjálparsíma Rauða krossins, sem eru 904-1500 fyrir þá sem vilja greiða 1.500 kr. í söfnunina, 904-2500 fyrir 2.500 kr. og 904-5500 ef greiða á 5.500 kr. Framlagið rennur óskert í söfnunarsjóð Rauða krossins, segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert