Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Thelma Ásdísardóttir megi bera vitni í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar gegn tveimur konum, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar og útgáfufélagi Pressunnar. Með því felldi Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur úr gildi.
Gunnar, sem oftast er kenndur við Krossinn, stefndi Vefpressunni, útgáfufélagi Pressunnar, vegna fréttaflutnings af konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot. Hann krefst 15 milljóna í skaðabætur og afsökunarbeiðni frá tveimur konum og frá Vefpressunni; fimm milljóna frá hverjum aðila fyrir sig vegna umfjöllunar um ásakanir um kynferðisbrot.
Lögmaður kvennanna krafðist þess að Thelma fengi að bera vitni í málinu en lögmaður Gunnars fór fram á að þeirri kröfu yrði hafnað.
Héraðsdómur taldi að samkvæmt framkomnum skýringum og öðrum gögnum málsins að Thelma Ásdísardóttir gæti ekki talist vitni sem beri um málsatvik í málinu í skilningi 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, og að af því leiði að ekki væru lagaskilyrði til þess að leiða hana fyrir dóminn í því skyni.
Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar að ekki verði fullyrt eins og atvikum sé háttað að vitnisburður Thelmu sé tilgangslaus og geti ekki haft þýðingu við úrlausn meiðyrðamálsins. Það sé síðan dómara að meta sönnunargildi þess vitnisburðar þegar leyst verður efnislega úr málinu „þar sem meðal annars ber að taka tillit til þess ef vitnið hefur ekki skynjað af eigin raun atvik, sem um er deilt á málinu, þótt hún kunni að bera um atriði sem ályktanir verði dregnar af um slík atvik, til dæmis með því að styrkja eða veikja framburð annarra fyrir dómi um þau.“
Frétt mbl.is: Thelma fær ekki að bera vitni
Frétt mbl.is: Gunnar vildi fjölmiðlabann
Frétt mbl.is: Gunnar hyggst stefna Pressunni