Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fyrrverandi fjármálastjóra Háskóla Íslands. Maðurinn dró sér samtals 9.093.746 krónur í starfi sínu frá 22. febrúar 2007 til 12. janúar 2012. Hann er ákærður fyrir fjárdrátt og fjársvik í opinberu starfi.
Í 1. lið ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir fjárdrátt í opinberu starfi en til vara fyrir umboðssvik í opinberu starfi. Þá greiddi hann með kreditkorti skólans í 59 skipti og með því er hann sagður hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda Háskóla Íslands til að greiða fyrir vörur eða þjónustu í eigin þágu. Nam upphæðin í þessum ákærulið 1.390.591 krónu.
Þegar færslurnar eru skoðaðar er ekki annað hægt að álykta en að fjármálastjórinn hafi verið veisluglaður maður. Þannig keypti hann vörur hjá Sóma ehf. fyrir 20.880 krónur þann 16. apríl 2009 og sama dag fyrir rúmar fjörutíu þúsund krónur í Vínbúðinni. Eins færslur koma fyrir 18. maí 2011 en þá varði hann tæpum þrjátíu þúsund krónur í Vínbúðinni en 35 þúsund krónum hjá Sóma.
Fjármálastjórinn var einnig tíður gestur á veitingastöðum Reykjavíkur. Þannig varði hann 35.640 krónum á veitingastaðnum Vox þann 12. desember 2009, 11. desember 2010 varði hann 107.800 krónum á sama stað og 10. desember 2012 varði hann þar 84.400 krónum.
Þá eru einnig færslur á Humarhúsinu, Basil og Lime, Ítalíu, Horninu, Caruso, Fiskmarkaðnum, Perlunni og Veisluturninum.
Hæsta einstaka færslan var upp á tæplega 250 þúsund krónur, á Grandview í Las Vegas.
Í öðrum ákærulið er maðurinn ákærður fyrir fjársvik í opinberu starfi en til vara fyrir fjárdrátt í opinberu starfi. Hann er sagður hafa blekkt gjaldkera Háskóla Íslands til aðg reiða tilhæfulausa reikninga og til að greiða útlagðan kostnað vegna fyrirlestrar og ráðgjafavinnu sem voru Háskóla Íslands óviðkomandi. Nam upphæðin í þessum ákærulið 1.496.909 krónum.
Í þriðja lið er hann svo ákærður fyrir fjársvik í opinberu starfi en til vara fyrir fjárdrátt í opinberu starfi fyrir að hafa blekkt gjaldkera Háskóla Íslands til að greiða reikninga vegna erlendrar þjónustu sem voru Háskóla Íslands óviðkomandi. Upphæðin í þessum ákærulið nam 6.206.246 krónum.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.