„Hann hafði eigið öryggi í huga“

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Lögmaður lögreglumanns sem ákærður er fyrir líkamsárás þegar hann handtók konu á Laugavegi í júlí síðastliðnum sagði að hann hefði verið að koma í veg fyrir frekara ofbeldi gegn sér. Þá sé óumdeilt að hann hafi beitt viðurkenndri handtökuaðferð sem hann hafi hlotið sérstaka þjálfun í að beita.

Eins og komið hefur fram á mbl.is fór aðalmeðferð í málinu fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögreglumaðurinn hefur frá upphafi neitað sök og sagði lögmaður hans það alls ósannað að hann hefði haft ásetning til að veita konunni líkamstjóni. Það sé grundvallaratriði og vegna þess eigi að sýkna hann.

„Ákærða var rétt að handtaka [konuna] eins og á stóð, ekki er deilt um það. Hún hafði ítrekað neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu og í kjölfarið veittist hún fyrirvaralaust með ofbeldi að lögreglumanni. Um þetta er ekki deilt. Það var tilefni til handtöku,“ sagði Grímur Hergeirsson, verjandi lögreglumannsins.

Ekki er ákært fyrir ólögmæta handtöku en ákæruvaldið heldur því fram að beita hafi átt vægari úrræðum. Á þetta féllst Grímur ekki. „Honum var bæði heimilt og rétt, eins og á stóð, að beita þessari aðferð. Sú staðreynd skiptir máli að hann notaði viðurkennda aðferð og það undirstrikar ákveðna fagmennsku lögreglumanns við krefjandi aðstæður. [...] Hann valdi aðferð sem er viðurkennd valdbeitingaaðferð.“

Hann sagði, og vitnaði til gagna þar um, að þær handtökuaðferðir sem kenndar eru miði að því að tryggja öryggi lögreglumanns og þess sem handtekinn er og um leið að reyna valda þeim síðarnefnda sem minnstu tjóni. Það hafi hins vegar komið fram hjá kennara við Lögregluskólann og þjálfurum í valdbeitingartökum að það geti gerst að þeir sem eru handteknir hljóti minniháttar áverka.

Þá sagði hann að lögreglumaðurinn hefði frá upphafi skýrt hvers vegna hann valdi þessa handtökuaðferð. „Hann hafði eigið öryggi í huga og stóð þannig að málum að henni gæfist ekki tækifæri til að halda ofbeldinu áfram. [...] Hann var að koma í veg fyrir frekara ofbeldi. Átti hann sleppa því og athuga hvort hún myndi halda áfram og mátti hann þá setja hana í jörðina? Eða hversu oft hefði hún mátt hrækja á hann áður en hann hafði réttmæta ástæðu til að taka hana niður og handjárna? Hann taldi sig beita vægustu aðferð miðað við aðstæður.“

Konan hlaut 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hrækja á lögreglumanninn í umrætt sinn. Grímur benti á að í dómnum sé sérstaklega vikið að því að brotið sé alvarlegt og að dómstólar hafi litið á brot sem þessi alvarlegum augum. „Brot af þessu tagi er einkar ógeðfellt og það má ekki gera lítið úr því að þetta er ofbeldi sem getur haft í för með sér hættu á sýkingum og smiti hjá þeim sem verður fyrir. Ekki síst ef hrákinn fer í auga eins og í umrætt skipti.“

Grímur sagði að val á aðferð hafi verið byggt á rökstuddum grun um að hún myndi halda áfram að beita ofbeldi. Hann hafði rökstudda ástæðu til að ætla það, því hún var nýbúinn að gera það. [...] Hann var einungis að framkvæma lögmæta handtöku og beitti við það viðurkenndum aðferðum. Það var fullt tilefni til handtöku og handtakan var í samræmi við meðalhófsregluna. Hann fór ekki offari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka