„Hef ekkert á móti lögreglunni“

Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar í konuna.
Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar í konuna.

„Ég hef ekkert á móti lögreglunni og er ekki ofbeldishneigð manneskja,“ sagði kona sem handtekin var á Laugavegi í júlí síðastliðnum. Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn lögreglumanninum sem handtók hana fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Konan sagðist aldrei hafa orðið jafn ölvuð og þetta kvöld.

Konan lýsti því að hún hefði verið á heimleið þessa nótt. Hún hafi gengið upp Laugaveginn, á þeim hluta sem var lokaður fyrir umferð á þessum tíma, ásamt fleira fólki og þegar félagi hennar missti poka hafi þau sest niður á götuna. Þá hafi lögreglubílinn komið að. „Mér var tilkynnt í gegnum kallkerfi að færa mig. Ég var eitthvað sein til svara og stóð ekki upp strax. Þá heyrist karlmannsrödd úr bifreiðinni og kallar hann á mig og segir mér að færa mig. Svo spyr hann hvort ég sé þroskaheft og hvort ég sé það þroskaheft að það ætti að handtaka mig,“ sagði konan.

Hún sagðist við það hafa staðið upp en tekið sinn tíma í það. „Ég gegn til hliðar við bifreiðina og stend mjög nálægt henni þegar hann keyrir framhjá og lendir spegill bílsins á mér. Hann stoppar svo bifreiðina þar sem ég er við opinn glugga. Þar eiga sér stað orðaskipti en ég man ekki fullkomlega eftir öllu sem kom fram. Hann tók þá í hurðina á bílnum og ýtir mér með henni og keyrir svo löturhægt áfram. Ég segi eitthvað væntanlega við hann sem ég man ekki hvað var. Svo „tuffa“ ég inn um gluggann.“

Þarna stöðvaði dómari frásögnina og spurði hvað í ósköpunum „tuffa“ sé. Skýrði konan frá því að það væri fínna orð yfir að hrækja.

Hún sagðist muna eftir því að hafa verið sett inn í bílinn og eftir því að hafa verið með andlitið í jörðinni og einnig í gólfinu í bifreiðinni. Þá hafi hún verið keyrð niður á stöð og sett inn í klefa. „Ég fer inn í klefann og fer að sofa þar.“

Spurð út í ölvunarástand sagðist konan aldrei á ævinni hafa orðið eins ölvuð og þetta kvöld. Hún hafi farið í brúðkaup og útskrift og í raun verið komin heim og upp í rúm vegna ölvunar eftir miðnætti. Þá hafi meðleigjandi hennar komið heim, sagt að það væri klukkutími eftir af bænum og hvort hún vildi ekki skella sér með. Hún hafi slegið til en muni ekki mikið frá því sem gerðist.

Saksóknari spurði þá hvers vegna hún hafi ekki fært sig. „Sökum ölvunarástands. Það tók langan tíma fyrir upplýsingarnar að síast inn. [...] Það var bara engin hugsun sem fæddist og leiddi að einhverjum gjörðum. Mér finnst merkilegt að ég hafi yfir höfuð staðið í lappirnar.“

Hún segist ekki hafa ætlað að ógna lögreglunni og gat ekki skýrt það hvers vegna hún hrækti á lögreglumanninn. „Það var engin hugsun á bak við það.“

Konan lýsti svo áverkum sem hún hlaut við handtökuna sem væru enn að plaga hana. Hún gæti ekki gert ákveðna hluti og hefði verið í sjúkraþjálfun. Þá sagði hún málið hafa haft mikil áhrif á sig. Fjölmiðlar hefðu hringt stanslaust í tvær vikur og sent smáskilaboð. Þá hafi varla liðið sá dagur að ekki sé minnst á atvikið við hana enda hafi myndbandið farið mjög víða. Hún hafi frá þessum degi verið í „mínus“, hafi snemma dregið sig í hlé og láti lítið fara fyrir sér.

Um tíma hafi hún flutt úr borginni til að losna við áreiti og komast burtu frá málinu. 

Konan var sjálf dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hrækja á lögreglumanninn.

Aðalmeðferð heldur áfram og skýrsla tekin af vitnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka