„Þetta var fumlaus handtaka“

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

„Þetta var fumlaus handtaka,“ sagði lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hann er ákærður fyrir líkamsárás vegna handtöku á Laugavegi í júlí sl. Hann sagði handtöku nauðsynlega til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur lögreglumanninum fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Myndband af lögreglumanninum handtaka konu í miðborg Reykjavíkur í júlí fór sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum og var maðurinn í kjölfarið leystur frá störfum.

Lögreglumaðurinn lýsti því að kallað hefði verið eftir aðstoð á krá við Laugaveg sem reyndist svo ekkert mál. Þegar bifreiðinni var ekið eftir Laugavegi sátu tvær konur og einn karlmaður á götunni. „Ég flauta til að fá þau til að færa sig af akbrautinni svo við kæmumst áfram. Maður og kona standa strax upp og maðurinn tekur í hönd hinnar konunnar og reynir að fá hana með sér en hún slítur sig lausa og situr sem fastast. 

Ég kveikti á sírenu bifreiðarinnar og í henni heyrist skýrt og greinilega en hún færði sig ekki. Þá tók ég gjallarhorn bifreiðarinnar og kallaði út um gluggann. Og í því heyrist mjög greinilega. Hún gerði það ekki. Í síðasta skipti aðvaraði ég hana og sagði að hún yrði handtekin ef hún myndi ekki færa sig.

Þá stóð hún upp og horfði á okkur, ég keyrði örlítið að henni í von um að hún myndi fara burtu. Svo reyndi ég að komast framhjá henni. Hún fór utan í spegilinn á bílnum og ég bað hana að færa sig, spurði hvort eitthvað væri að henni. Svo endaði það með því að hún hrækti á mig og inn í lögreglubílinn. Þá tók ég ákvörðun um að handtaka hana. Ég sneri hana niður innan gæsalappa. Þeir sem voru með mér í bílnum aðstoðuðu mig og við færðum hana inn í bílinn og þaðan niður á stöð þar sem varðstjóri tók þá ákvörðun að vista hana í klefa, þar sem hún var ekki viðræðuhæf,“ sagði lögreglumaðurinn.

Lögreglumaðurinn lýsti því einnig að hrákinn hefði farið í andlit hans og yfir annan lögreglumann í bílnum. „Um leið og hún er búinn að hrækja í andlit lögreglumanns þá tel ég viðkomandi hættulega. Ég tek það mjög alvarlega. Ég tók ákvörðun um þessa aðferð einfaldlega til að geta komið í veg fyrir að hún gæti gert nokkuð meira. Ég valdi þessa aðferð, sem að mínu mati er öruggust til að ég verði ekki fyrir frekara ofbeldi.“

Saksóknari spurði hvort konan hefði verið ógnandi og sagði lögreglumaðurinn að ógnunin hefði falist í hrákanum. Spurður hvort konan hefði sýnt mótþróa sagði lögreglumaðurinn: „Hún fékk ekki tækifæri til þess. Þetta gerðist mjög hratt og þetta var fumlaus handtaka að mínu mati.“

Spurður hvort hann hefði í umrætt skipti misst stjórn á skapi sínu hafnaði lögreglumaðurinn því alfarið. „Mér finnst ógeðfellt og leiðinlegt að ég geti ekki keyrt niður Laugaveginn í starfi mínu án þess að hrækt sé á mig en ég missti ekki stjórn á skapi mínu.“

Aðalmeðferðin heldur áfram en gert er ráð fyrir að henni ljúki í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka