Árið 1998, þegar Diljá Natalía Guðmundsdóttir var þriggja mánaða gömul, lenti faðir hennar í mjög alvarlegu vinnuslysi. Áfallið var mikið fyrir alla fjölskylduna og við tók margra ára ferli þar sem faðir hennar, Guðmundur Felix Grétarsson, var á milli heims og helju. Hann missti báða handleggi en bíður þess nú að fá grædda á sig handleggi úti í Frakklandi. Diljá fylgir föður sínum eftir.
Diljá á systur sem er fjórum árum eldri. Sjálf fæddist Diljá 5. október 1997 og í þrjá mánuði var þessi fjögurra manna fjölskylda eins og hver önnur lukkuleg fjölskylda. Hamingjan var mikil, enda alltaf kraftaverk þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn.
Hinn 12. janúar 1998 breyttist allt. Heimsmynd fjölskyldunnar varð aldrei aftur sú sama. Þann dag var Guðmundur Felix að vinna við Úlfarsfellslínu þegar hann fékk ellefu þúsund volta rafstraum í gegnum sig og féll átta metra niður á frosna jörð Hann slasaðist alvarlega og brotnaði á ótal stöðum í líkamanum. Nema þurfti handleggi hans á brott og hann var í dái í sjö vikur. Þegar hann vaknaði tóku við ferðir á milli landa þar sem leitast var við að bjarga því sem hægt var að bjarga. Næstu árin einkenndust af mikilli ringulreið og allt sem kallast gat „hefðbundið“ fjölskyldulíf var úr skorðum.
Fyrsta minning Diljár um föður sinn er frá því hún var um fimm ára gömul. „Fjölskyldan var einhvers staðar í viðtali og ég man að mér fannst athyglin óþægileg. Hluti þessa viðtals fór í fréttirnar og þegar ég mætti í leikskólann voru fósturnar mikið að spyrja út í þetta. Með hverjum degi sem leið fór ég að átta mig á þessu betur og betur. Þegar krakkarnir fóru að spyrja og benda: „Af hverju er pabbi þinn svona? Er hann sjóræningi? Er hann fatlaður? Fæddist hann svona?“ Það tók mig góð 13 ár að viðurkenna það að pabbi minn er fatlaður, hann fæddist ekki svona, hann þarf hjálp við nánast allt sem eðlileg manneskja getur gert sjálf,“ segir Diljá þegar hún horfir aftur, til þessara erfiðu ára.
Diljá hefur lært margt af pabba sínum. Hann er nefnilega ekki alveg venjulegur, fyrir utan það augljósa: að vera handalaus. „Hann getur útbúið græjur til að gera allt sjalfur. Til dæmis ekur hann bíl með fótunum, notar tunguna og nefið á iPhone-inn og svo setur hann upp í sig blýant til að pikka á tölvuna. En hann þurfti sko að læra á þetta allt saman því hann þurfti að læra að lifa upp á nýtt!“
Þegar Diljá er spurð hvað hún haldi að geri pabba hennar svona ótrúlegan er hún snögg að svara: „Ég held að hann sé bara guðsgjöf og ég er mjög þakklát fyrir þessa gjöf. Hann er bæði hetja og kraftaverk. Eftir allt það sem hann hefur lent í stendur hann ennþá í fæturna og er á lífi,“ segir hún.
Þeir sem til þekkja vita að Guðmundur Felix er sannarlega á lífi og rúmlega það. Hann hefur ótrúlega magnaða nærveru, einstakan viljastyrk og stórkostlegan húmor.
Nú er Guðmundur Felix úti í Lyon í Frakklandi þar sem aðgerðin mun fara fram. Þangað fer Diljá eftir þrjár vikur og hún ætlar að búa hjá pabba sínum og fara í franskan skóla í janúar. Þau ætla að halda jólin saman og hún hlakkar mikið til þess. Þó er hún ekki viss hvort jólin verði haldin á sjúkrahúsinu eða ekki.
„Ef hann fer í aðgerðina núna í desember getur vel verið að við höldum jólin bara á spítalanum. Kannski verður pabbi kominn með hendur um jólin og það yrði sko heimsins besta jólagjöf,“ segir Diljá.
Hún hlakkar til margs í framtíðinni og segir í gríni að þá geti pabbi hennar notað alla þessa vettlinga sem vinir hans hafi gefið honum í gríni gegnum tíðina.
„Ég hlakka mest til að fá knús og að spila við hann. Ég spilaði stundum við hann þegar ég var lítil en hann þurfti alltaf að hvolfa spil- unum og ég sá allt,“ segir hún.
Þeir sem vilja styrkja Guðmund Felix og söfnunina geta farið inn á síðuna www.hendur.is eða á sam- nefnda síðu á Facebook. Einnig má leggja beint inn á reikning Handa sem er 537-26-2164 og kennitalan 530711-0130.