Áttatíu sekúndna atburðarrás

Hversu langt má lögreglumaður ganga í valdbeitingu gagnvart konu sem hlýðir ekki ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig og hrækir svo framan í hann. Það er kjarni málsins í máli ákæruvaldsins gegn lögreglumanni sem handtók ofurölvi konu fyrir þessar sakir á Laugavegi í júlí síðastliðnum.

Málsatvik áttu sér stað að morgni 7. júlí, nánar tiltekið rétt eftir klukkan fimm. Raunar liggja fleiri myndbönd fyrir í málinu en þau voru ekki sýnd við aðalmeðferðina sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og lauk síðdegis.

Konan sem er 29 ára kærði ekki málið strax heldur komst myndbandið hér að neðan í almenna dreifingu og varð til þess að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vísaði málinu til rannsóknar. Ákveðið var að ákæra í málinu og er lögreglumanninum gefin að sök líkamsárás og brot í opinberu starfi. Ekki er ákært fyrir ólögmæta handtöku.

Saksóknari krafðist þess að lögreglumaðurinn verði dæmdur í nokkurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Verjandi hans krefst sýknu.

Vildi koma í veg fyrir fleiri hráka

„Um leið og hún er búin að hrækja í andlit lögreglu tel ég viðkomandi hættulega og tek málið mjög alvarlega. Þá tek ég ákvörðun um að beita þessari aðferð, einfaldlega til að geta komið í veg fyrir að hún geti gert nokkuð meira. Ég valdi þá aðferð sem ég taldi öruggasta til að ég yrði ekki fyrir frekara ofbeldi,“ sagði lögreglumaðurinn þegar hann gaf skýrslu í morgun.

Saksóknari spurði hvort ekki hefði verið hægt að beita vægari úrræðum, t.d. að handtaka konuna þar sem hún stóð. „Nei, vegna þess að ef hún hefði staðið upprétt hefði hún getað snúið sér við og hrækt aftur framan í mig eða okkur. Það er ástæðan fyrir því að ég vel þessa aðferð.“

Eins og áður segir er ekki ákært fyrir ólögmæta handtöku og tók saksóknari fram að rétt hefði verið að handtaka konuna enda braut hún með hrákanum gegn valdsstjórninni. Þá er ekki efast um að aðferðin sem lögreglumaðurinn beitti sé viðurkennd og kennd í Lögregluskólanum eða að hann hafi ekki beitt henni rétt. „Hins vegar er það mat ákæruvaldsins að fyrir utan þennan hráka hafi [konan] verið róleg og ekkert í hennar hegðun gaf tilefni til svona harkalegrar handtöku,“ sagði Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari.

Grímur Hergeirsson, verjandi lögreglumannsins, spurði á móti hversu vönduð vinnubrögð það hefðu verið hjá lögreglumanninum ef hann hefði látið eins og ekkert hefði gerst - ekkert brot gegn valdsstjórninni. Hann spurði einnig hversu oft konan hefði þá mátt hrækja í rólegheitum á lögreglumanninn áður en hann gat gripið til handtöku sem kæmi í veg fyrir að hún gæti haldið því áfram.

Fullt tilefni til handtöku

Saksóknari vísaði meðal annars til þess að 80 sekúndur liðu frá því að lögreglubíllinn kom að þar sem konan sat á götunni, sem í raun var göngugata þar sem hún var svonefnd sumargata og þar af leiðandi lokuð bílaumferð, og þar til konan var færð inn í lögreglubílinn. Það hafi því verið gefið afar lítið svigrúm fyrir konuna sem var ofurölvi.

Hvað þetta varðar sagði verjandi lögreglumannsins að tímalengdin skipti ekki meginmáli. Á þessum tíma hlýddi konan ekki fyrirmælum lögreglu um að færa sig en það stóð þá aldrei til að handtaka hana. Hins vegar hafi nýr kafli hafist þegar hún hrækti inn um rúðu lögreglubílsins og framan í lögreglumanninn. „Þarna á þessum tímapunkti, þegar hún er búin að hrækja, endar það sem sækjandi talar um og segir að svigrúm skorti. Hún sýnir af sér ofbeldi sem gerir það að verkum að ekki er hægt að tala um svigrúm.“

Saksóknari sagði að fullt tilefni hefði verið til að handtaka konuna á þessum tímapunkti en það verði að leggja mat á hvort það þyrfti að handjárna hana. Og ef dómurinn telji að það hafi verið nauðsynlegt hvort það hafi þá kallað á að koma henni í jörðina og handjárna hana þar. „Ákærði lét ekki á það reyna hvort hún myndi sýna mótþróa við handtöku heldur stekkur hann út úr bílnum eftir að hann fær hrákann í andlitið og beitir strax þessari harkalegu aðferð.“ Þá benti saksóknari á að konan hefði verið mjög ölvuð og það skýri eflaust hvers vegna hún var sein að fylgja fyrirmælum.

Verjandi lögreglumannsins sagði að ekki sé hægt að gefa fólki frípassa af því það er ölvað. Ástand hennar hafi ekki á nokkurn hátt gefið til kynna að hún myndi ekki hrækja aftur. Það hafi því verið nauðsynlegt að handjárna hana og sú ákvörðun hafi verið byggð á rökstuddum grun um að hún myndi beita áframhaldandi ofbeldi. „Það verður að gefa lögreglumönnum ákveðið svigrúm til þess að velja á milli aðferða og aðgerða við aðstæður eins og þarna koma upp. [...] Hann var einungis að framkvæma lögmæta handtöku og beitti við það viðurkenndum aðferðum. Það var fullt tilefni til handtöku og handtakan var í samræmi við meðalhófsregluna.“

Meta þarf aðstæður hverju sinni

Meðal þess sem saksóknari nefndi er heimild lögreglu samkvæmt lögum til að beita samborgara sína valdi við framkvæmda starfa sína. En í sömu lögum komi fram að þeir megi ekki ganga lengra en þörf krefji hverju sinni. Í stað harkalegra úrræða skuli lögregla ávallt velja vægasta úrræðið. „Þetta er það sem lögreglumenn læra og verða að hafa í huga. Þegar þeim er veitt sú heimild að beita samborgara sína valdi þarf að setja skorður og það er hamrað á þessu. Valdinu fylgir mikil ábyrgð og þessa meðalhófsreglu verður að hafa í huga.“

Sjálfur sagði lögreglumaðurinn í morgun að það sé hann sjálfur sem meti aðstæður hverju sinni og þarna taldi hann sig ekki geta tekið áhættuna á því að beita vægari úrræðum. Þetta hafi verið vægasta úrræðið í þessum aðstæðum og með þessu lögreglutaki hafi hann gert það sem var öruggast fyrir þau bæði.

Verjandi hans sagði ljóst að handtaka líti aldrei vel út. Þetta séu átök og það sé verið að beita líkamlegu valdi. En það megi ekki rugla fólk í ríminu. Þá sé þetta í raun ekki aðeins mál á hendur þessum tiltekna lögreglumanni heldur lögreglumönnum í heild sinni. „Lögreglumenn hafa áhyggjur af því að ef niðurstaðan er sú að þeir mega ekki beita þeim handtökuaðferðum sem þeim eru kenndar til að vinna bug á ofbeldi gegn þeim sé starfsöryggi þeirra í hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert