„Valdbeiting á alltaf að vera hófleg“

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Óumdeilt er að handtaka bar konu sem hrækti á lögreglumann á Laugavegi í júlí síðastliðnum og að lögreglumaðurinn beitti viðurkenndum aðferðum við handtökuna. Um það snýr mál á hendur lögreglumanninum ekki heldur hvort hann hafi farið offari við handtökuna. Þetta sagði saksóknari í málflutningsræðu.

„Lögreglumenn þurfa oft að taka erfiðar ákvarðanir á stuttum tíma og leggja mat á aðstæður. Og það er þannig að starfsaðstæður þeirra eru oft mjög erfiðar. Engu að síður og þrátt fyrir það svigrúm sem lögreglumönnum er veitt til valdbeitingar verða menn að geta staðið með ákvörðunum sínum og bera ábyrgð á þeim,“ þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá ríkisaksóknara, við aðalmeðferð í máli gegn lögreglumanni sem handtók konu á laugavegi í júlí.

Kolbrún sagði að málið virðist bera keim af því að lögreglumaðurinn hafi verið pirraður þegar konan hrækti á hann. „Auðvitað er það ekkert grín að verða fyrir því í starfi að það sé hrækt á mann og menn eiga ekki að taka því þegjandi. En lögreglumenn sem hafa heimild til að beita valdi verða að taka ákvarðanir á yfirvegaðan máta. Í þessu máli var ekki tilefni til að fara í þessar harkalegu aðgerðir og með þeim fór hann út fyrir valdssvið sitt.“

Hún benti á að það væri ekki ákært fyrir handtökuna sem slíka eða hvort aðferðin hafi verið eftir bókinni. „Það er spurning hvort hann beitti meðalhófi þegar hann ákvað að koma konunni í jörðina, handjárna hana og með hvaða hætti hann setti hana inn í bifreiðina. [...] Valdbeiting á alltaf að vera hófleg.“

Saksóknari sagði erfitt að nefna hæfilega refsingu en það væri nokkra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert