Jóhann Fannar Kristjánsson er 18 ára afreksíþróttamaður í fimleikum. Morgunblaðið leit inn á æfingu hjá Gerplu, þar sem hann æfir tvisvar í viku. Jóhann er elstur þriggja systkina, en hann er með Downs-heilkenni.
Spjall okkar Jóhanns byrjaði með öfugum formerkjum, því fyrsta spurning Jóhanns til mín var hvort ég væri „svona Manchester-maður.“ – „Já,“ svaraði ég undrandi, óvanur því að viðmælendur byrji spjall á að spyrja mig að nokkru. Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga á íþróttinni hef ég haft taugar til liðsins frá bernsku. „Hvernig vissir þú það?“ spurði ég í framhaldi. Jóhann brosti bara sposkur til mín.
Sjálfur er Jóhann mikill stuðningsmaður Liverpool. Hann horfir á alla leiki liðsins sem hann getur með föður sínum, Kristjáni Jónssyni, sem hann segir að sé líka gallharður stuðningsmaður Bítlaborgarliðsins. Ekki nóg með að liðsmenn Liverpool fái hvatningarhróp frá Jóhanni, því hann er einnig mikill aðdáandi heimaliðs sín Breiðabliks.
Meðal Blika tilgreindi hann sérstaklega Árna Vill (Vilhjálmsson), sem sé stuðningsfulltrúi hans þegar hann er ekki að raða inn mörkum, og Sverri Inga Ingason. Guðmann Þórisson og Alfreð Finnbogason væru líka meðal hans bestu vina. Ósk Víðisdóttir, móðir Jóhanns, sagði hann mæta á alla heimaleiki karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, og jafnvel fylgja liðinu á útileiki.
„Hann hefur farið með þeim upp á Akranes og farið með þeim í rútunni að keppa og svoleiðis. Þeir taka hann mjög mikið með sér. Eftir alla leiki fær hann svo að fara inn í klefann hjá liðinu. Svo fékk hann ferð á Liverpool-leik í fermingargjöf,“ sagði Ósk.
Jóhann sagði gaman að æfa fimleika með Gerplu undir handleiðslu þjálfaranna sinna, Axels og Evu. „Ég keppi í hringjum, á bogahesti, tvíslá og á svifslá. En mér finnast hringirnir skemmtilegastir,“ sagði Jóhann Fannar.
Jóhann er einnig mikill áhugamaður um kvikmyndir, þá sérstaklega myndir með Tom Cruise, Bond-myndir og allar myndirnar um Harry Potter. „Mér finnst Harry Potter og leyniklefinn langskemmtilegust.“
Jóhann Fannar stundar nám á starfsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti, en Morgunblaðið fjallaði í lok sumars um framsæknar kennsluaðferðir og tæknivæðingu starfsbrautarinnar. Starfsbrautin heldur meðal annars úti virkri facebook-síðu undir heitinu „Starfsbraut“.
Þar sagðist Jóhann læra ýmislegt, en tilgreindi sérstaklega náttúrufræði og ensku, sem honum þykir skemmtilegust. „Grjóthart,“ svaraði Jóhann svo þegar ég sagði honum að hópur nemenda á starfsbraut væri væntanlegur í heimsókn á ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins í næstu viku.
Jóhann hefur keppt fyrir hönd Íslands á tvennum Special Olympics, í Sjanghæ árið 2007 og í Aþenu árið 2011. Á fyrri leikunum fékk hann tvenn gullverðlaun og gull-, silfur- og bronsverðlaun á þeim síðari. Hann stefnir ótrauður á leikana í Los Angeles árið 2015 og eru liðsfélagar hans í Gerplu sannfærð um að hann verði meðal þeirra íþróttamanna sem fari þangað. „Hann er kóngurinn,“ sagði einn æfingafélagi hans. Jóhann hefur æft fimleika frá sjö ára aldri og hefur gengið mjög vel að sögn Óskar. „Stuðningsfulltrúinn hans í Kópavogsskóla benti okkur á að koma hingað, sem varð til þess að hann byrjaði að æfa.“
Hún segir Gerplu halda mjög vel utan um fötluðu íþróttamennina. „Þau gera mjög miklar kröfur, manni finnast þær eiginlega alveg jafnmiklar og eru gerðar til ófatlaðra,“ sagði Ósk. Hins vegar hafi því miður þurft að fækka æfingum úr þremur í tvær af fjárhagslegum ástæðum. Fleiri þjálfara sé þörf fyrir hvern fatlaðan iðkanda en ófatlaðan og því dýrara að halda úti æfingum fyrir þá. Ósk segir þetta miður, því Jóhann hlakki mikið til að fara á æfingar, og að þetta sé mikilvægur þáttur í félagslífi hans.