„Þessi félagsskapur hentaði mér ekki,“ sagði Hilmar Þór Leifsson við aðalmeðferð í meiðyrðamáli hans gegn ritstjóra og framkvæmdastjóra DV. Hilmar var í samtökunum Fáfni en sagði skilið við þau þegar inngönguferli inn í Vítisengla hófst. Hann sagðist alls ekki hafa viljað tengjast þeim samtökum.
Hilmar höfðaði raunar tvö mál, eitt vegna umfjöllunar í dagblaðinu DV og annað vegna umfjöllunar á vefsvæðinu dv.is. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli sem birtust í blaðinu í ágúst 2012 verði ómerkt:
Og eftirfarandi ummæli sem birtust á sama tíma á vefsvæðinu dv.is:
Í hvoru máli fyrir sig krefst hann þess að ritstjóri og framkvæmdastjóri DV greiði eina milljón króna í miskabætur.
Aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hófst á því að Hilmar Þór gaf skýrslu. Hann var meðal annars spurður, af Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni lögmanni sínum, að því hvernig honum varð við að sjá umfjöllun DV. Sagðist hann hafa verið mjög svekktur og erfitt væri að sitja undir ósannindum sem þessum. Hann neitaði því alfarið að hafa verið meðlimur í glæpasamtökum og hann sé ekki fyrrverandi meðlimur Vítisengla.
Hilmar var hins vegar í Fáfni sem síðar fékk inngöngu í Vítisengla. „Ég hætti þegar þeir fóru í þetta inngönguferli. Það var í kringum 2007. [...] Ég prófaði þetta af því ég hef gaman af akstri mótorhjóla. [...] Þetta virkaði saklaust og snerist um mótorhjól og að hjóla saman, fara í hópkeyrslur. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á frekari samskiptum og alls ekki að tengjast Hells Angels,“ sagði Hilmar sem sagði félagsskapinn ekki hafa hentað sér.
Spurður nánar um það hvenær hann hætti sagði Hilmar að það hafi verið þegar ljóst var að inngönguferlið var að verða að veruleika.
Eftir spurningar Vilhjálms tóku við spurningar tveggja lögmanna ritstjóra og framkvæmdastjóra DV. Meðal annars var Hilmar spurður að því hvernig mótorhjóla hann eigi. „Það er alþekkt að meðlimir Hells Angels eiga Harley og þú ert eflaust að fiska eftir því,“ sagði Hilmar og bætti við að hann ætti Harley Davidson. Hann sagði einnig að flestir þeir sem voru í Fáfni hafi átt mótorhjól af sömu tegund.
Spurður að því hvort hann hafi verið með merki Vítisengla á hjóli sínu sagði Hilmar: „Já, það þótti sniðugt á þeim tíma sem við vorum í Fáfni.“ Hann hins vegar þvertók fyrir að hafa látið húðflúra merki Vítisengla á sig eða merki Fáfnis.
Hilmar var spurður nánar að því hvenær hann hætti, hvort það hafi verið með samkomulagi við aðra meðlimi og hvort hann hafi látið einhvern vita þegar hann hætti. Annar lögmaðurinn spurði svo sérstaklega hvort Hilmar hafi látið DV vita þegar hann hætti í Fáfni. „Það var eins og að losna úr slæmu hjónabandi að losna úr þessari vitleysu. Ég held reyndar að það hafi verið greint frá því í dagblaðinu.“ Hann sagði að aðrir meðlimir hefðu að sjálfsögðu vitað af því að hann væri hættur.
Spurður út í það hvort Fáfnir hefði verið með undirdeildir skýrði Hilmar svo frá að það hefðu verið fjórir til fimm meðlimir í Fáfni þegar hann gerðist meðlimur og þeir hafi farið mest í tíu á meðan hann því tímabili stóð. Fáfnir hafi því ekki verið með neinar undirdeildir.
Eftir að Hilmar hafði svarað spurningum lögmanna var komið að munnlegum málflutningi. Vilhjálmur hóf leik og benti meðal annars á að tekjur geti verið með ýmsum öðrum hætti en hefðbundnar launatekjur. Í umfjöllun DV hafi ekki verið litið til þess að menn reki tiltekin einkahlutafélög eins og raunin sé með Hilmar. „Þannig að þessar launagreiðslur gefa alls ekki rétta mynd af því hvernig framfærslu stefnanda er háttað. En það hentaði DV betur að slá þessu fram með þessum hætti, eins og svo oft áður. Og er þá tilgangurinn látinn helga meðalið.“
Hann sagði DV vega alvarlega að æru Hilmars með umfjölluninni. Hann hafi ekki verið meðlimur í Vítisenglum, sem séu skilgreind sem skipulögð glæpasamtök. Hann hafi verið í Fáfni en það sé ekkert refsivert eða ólögmætt við þau samtök. „Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að þegar aðrir vildu gerast meðlimir að Hells Angels þá hafði stefnandi engan áhuga á því og hætti í samtökunum. Það verður því að teljast sannað að stefnandi var aldrei meðlimur í Hells Angels og ekkert í framlögðum gögnum stefndu sem rennir stoðum undir annað.“
Vilhjálmur sagði einna alvarlegustu ummælin vera þau að Hilmar hafi verið háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims og að hann sé þess umkomin að vinna barnshafandi konum mein. „Ekki er hægt að skilja annað af umfjölluninni en að hann hafi verið meðlimur í Hells Angels. DV bætir svo um betur og gerir hann að háttsettum meðlimi í stærstu glæpasamtökum í heimi. Hann hafði engan áhuga á að tengjast Hells Angels með einum eða neinum hætti. Þá er hann sakaður um að vera ofbeldismaður sem telji það ekki eftir sér að vinna ófærum konum mein.“
Þessi tilteknu ummæli voru tekin upp úr dómi sem sonur Hilmars hlaut á árinu 2010. Koma þau fyrir í málavaxtalýsingu og segir að fórnarlambið í málinu hafi látið orðin falla í skýrslutöku hjá lögreglu. Orðrétt segir: „Hefði ákærði sagt að faðir sinn væri hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu [...] mein.“
Í frétt á dv.is segir að þetta hafi komið fram fyrir dómnum en fyrirsögn fréttarinnar er: „Sagður hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ með 19 þúsund á mánuði.“
Vilhjálmur sagði að þáverandi ritstjórar DV beri ábyrgð á þessum ummælum, jafnvel þó þau komi fyrir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. „Það sem dv.is gerir hér er að þeir láta líta út fyrir það að [...] hafi látið þessi orð annað hvort falla við blaðamenn DV í tengslum við þessa frétt, ummælin eru í gæsalöppum, eða að þetta hafi komið fram fyrir dóminum sjálfum. Hvorugt er rétt. [...] Ummælin eiga að hafa verið látin falla þremur árum áður en fréttin birtist. Rúmum tveimur árum eftir að dómur fellur notar DV þetta í fyrirsögn og leyfir sér að fullyrða að Hilmar sé háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims. [...] Ef þetta er ekki ærumeiðandi þá eru ærumeiðingar ekki til.“
Katrín Smári Ólafsdóttir, verjandi ritstjóra og framkvæmdastjóra DV, sagði ummælin í umfjöllun DV og á dv.is ekki fela í sér ærumeiðingu, ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun í garð Hilmars Þórs. Ekki hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis, ummælin séu ekki ósönn eða tilhæfulaus. Þau ummæli sem stefnt sé vegna fjalli ekki með beinum hætti um Hilmar Þór eða séu sönn.
Hún benti á að nafn Hilmars Þór komi fyrir fjórum sinnum í umfjölluninni ásamt nöfnum fjölmargra annarra. Hún benti einnig á að það segi að Hilmar sé fyrrverandi meðlimur í Vítisenglum „eða Fáfnis eins og samtökin hétu þá.“ Það sé því skýrt tekið fram að hann sé fyrrverandi meðlimur Fáfnis. Þá hafi inngönguferlið inn í Vítisengla verið hafið þegar Hilmar var meðlimur Fáfnis. „Í umstefndu greininni kemur skýrt fram að hann er tengdur við Fáfni. Hann bar sjálfur við að hafa verið í Fáfni þannig að þarna er allt satt og rétt. Engin efni eru því til að ómerkja eða refsa fyrir þessi ummæli. Þau eru slitin í sundur og tekin úr samhengi. Það er allt útskýrt síðar í setningunni.“
Þó svo hugsanlega hefði gætt örlítillar ónákvæmni hafi blaðamaður verið í góðri trú.
Hvað varðar þau ummæli að Hilmar sé háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims sagði Katrín að ekki væri verið að staðhæfa það í umfjölluninni heldur hafa eftir öðrum, úr dómi héraðsdóms. „Ummæli í héraðsdómi verða ekki ómerkt í máli af þessu tagi. Sá sem greinina ritaði er ekki höfundur þessara ummæla, þetta eru ummæli höfð eftir öðrum.“
Þá sagði Katrín að ekki hefði verið sýnt fram á neitt tjón vegna þeirra ummæla sem stefnt sé vegna. Sjálfur hafi Hilmar lýst því að þetta hafi verið svekkjandi og pirrandi. „Ekki miklar þjáningar þar.“
Eftir að lögmenn höfðu lokið sér af var málið dómtekið og er dóms að vænta á næstu vikum.