„Eins og verið sé að hrækja á mig“

"Upphæðin er „afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg,“ svo ég noti orðalag sem Pétur Burcher," segir maðurinn. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég upplifi þessar bætur eins og það sé verið að hrækja í andlitið á mér. Upphæðin er svo svívirðilega lág að henni hefði betur verið sleppt,“ segir maður sem var við nám í Landakotsskóla á árunum 1970-1977. Hann upplifði þar andlegt og líkamlegt ofbeldi. Hann fékk í síðustu viku greiddar 82.170 krónur í bætur.

Maðurinn er á fimmtugsaldri og hefur komið sér ágætlega fyrir í lífinu. Hann segist ekki vera að segja sögu sína vegna peninganna. Honum ofbjóði hins vegar viðbrögð kaþólsku kirkjunnar í þessu máli.

„Ég hefði þurft hvatningu og hlýju í skólanum“

„Ég er fósturbarn og hafði verið í erfiðum aðstæðum fyrstu ár ævi minnar. Ég var gefinn strax við fæðingu og fór inn á Thorvaldsens vögguheimilið. Þaðan fór ég inn á vistheimilið að Silungapolli. Mér var bjargað þaðan þegar ég var á fimmta ári þegar fósturforeldrar mínir tóku mig að sér.

Á heimili foreldra minna var ekkert nema reglusemi og ég var alinn upp við góð gildi. Þau voru mjög góð við mig og eftir að ég kom til þeirra komst á festa í lífi mínu. Í hjarta mínu verða þau alltaf mamma og pabbi.

Árið 1970, þegar ég er sex ára gamall, hóf ég skólagöngu í Landakotsskóla, sem rekinn var af kaþólsku kirkjunni. Foreldrar mínir höfðu heyrt að það færi gott orðspor af þessum skóla.

Ég kom auðvitað vængbrotinn af Silungapolli og hefði þurft hvatningu og hlýju í skólanum vegna þess að ég var seinn með t.d. lestur og reikning. Ég lenti hins vegar í ennþá verri hlutum í skólanum.

Í skólanum gerðust hlutir sem voru alls ekki í lagi. Það var ekki eðlilegt hvernig talað var til barnanna. Við vorum mörg beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi. Margrét Müller kennari var þar fremst í flokki. Hún var með óútreiknanlegt skap. Að mínu mati var hún illgjörn og ekki heil á geði. Hún hefði aldrei átt að koma nálægt einu barni, hvað þá heldur heilum skóla. Hún gerði mikið upp á milli barna. Sum börn fengu sérmeðferð og betri á meðan önnur voru nídd niður.“

„Ég hímdi úti í rigningunni“

Getur þú nefnt dæmi um andlegt ofbeldi í skólanum?

„Ég var oftar en einu sinni látinn sitja eftir og þurfti þá að taka út refsingar sem maður vissi aldrei hverjar kynnu að verða eða af hverju þær voru lagðar á. Í skólastofunni var hornskápur og einu sinni fór ég í barnaskap mínum og tók þar nokkrar lýsistöflur sem okkur börnunum voru gefnar ein á dag. Ég taldi að þær gætu gert mann sterkari.

Margrét stóð mig að verki. Mér brá mikið því ég vissi á hverju ég átti von. Þarna var Müllerinn í essinu sínu. Það brást ekki, hún hélt yfir mér langa skammarræðu og sló mig svo utan undir. Þetta var ekki búið því svo lét hún mig gleypa lýsistöflur þar til ég var kominn á hnén, biðjandi um grið. Síðan var ég rekinn heim og ég man að ég gekk hágrátandi heim. Á leiðinni kastaði ég upp öllu lýsinu.

Ég var sendur í Riftún eitt sumar, en ég minnist þess staðar sem helvíti á jörðu. Þar rak kaþólska kirkjan sumarbúðir fyrir börn. Það var ekki eðlilegt hvernig þar var komið fram við börnin.

Krakkarnir fengu sent nammi að heiman. Það var tekið af börnunum á þeim forsendum að tryggja yrði að allir fengju jafnt. Síðan var því dreift út á nammidögum. Margrét átti til með að vera með þetta í fanginu og gefa börnum sem voru í uppáhaldi hjá henni. Namminu var stundum deilt út í þessum klikkuðu leikjum hennar þar sem hún var í miðjunni og þá bauð hún sumum en síðan var kannski bara einn sem fékk ekki neitt. Ég upplifði þetta einu sinni. Ég man að ég tók einhverju sinni of mikið að hennar mati og þá fór hún með puttana upp í mig til að ná því út.

Ég var laginn að teikna og átti það til að draga mig í hlé og teikna mér til skemmtunar. Einu sinni kom í ljós að litabók hafði verið rifin og eitt af uppáhaldsbörnunum hennar Margrétar sakaði mig um að hafa gert það. Það var ekki rétt. Þetta gerðist á 17. júní og það var búið að skreyta salinn og allir fengu útdeilt nammi. Ég var sendur út og hímdi þar úti í rigningunni meðan allir glöddust inni. Séra Georg kom 2-3 sinnum út og hamraði á því hvað ég væri slæmur drengur.

Á endanum var ég tekinn inn og rifinn úr rennandi blautum fötunum. Á meðan var þrumað yfir mér um hvað ég væri mikill aumingi og yrði ekkert nema glæpamaður eða eitthvað þaðan af verra.

Maður gat líka átt von á refsingu þó að maður væri að gera vel. Einu sinni teiknaði ég fallega mynd, en þá sagði Margrét að ég hefði tekið þetta upp úr annarri mynd, sem var alls ekki rétt. Síðan var myndin rifin í sundur fyrir framan bekkinn. Það var stöðugt verið að niðurlægja mann og brjóta mann niður. Stundum voru börnin fengin til að taka þátt með því að hía á mann.“

„Ég man eftir lamandi hræðslunni“

Nokkrir af þeim sem voru í Landakotsskóla á þessum árum hafa greint frá kynferðislegu ofbeldi séra Georgs skólastjóra Landakotsskóla. Viðmældi mbl.is segist hafa kynnst þeirri hlið á Georg líka, þó hann hafi ekki gengið eins langt við hann og við marga aðra.

„Það var ekki gaman að vera sendur til séra Georgs. Ég man eftir lamandi hræðslunni sem greip mann. Ég man eftir svörtu tjöldunum á skrifstofu hans og þessari vondu lykt sem var af honum. Hann var stórreykingamaður og fingur hans voru gulir. Ég var látinn sitja í fanginu á honum. Hann var alltaf fiktandi í eyrnasneplunum á mér meðan hann talaði við mig. Svo rak hann tunguna í eyrað og káfaði á mér alveg inn á bert hold. Ég vissi ekki hvernig ég átti að láta, en ég var svo hræddur að ég pissaði á mig. Þá varð allt brjálað. Hann dró mig út og jós yfir mig svívirðingum.

Ég vissi auðvitað ekki hvað þetta var. Ég vissi bara að þetta var eitthvað sem mátti ekki gera við börn. Þau urðu nokkur skipti þar sem ég endaði í fanginu á honum.

Séra Georg var mjög lúmskur. Á svipuðum tíma og hann var að brjóta á mér mætti  hann heim til foreldra minna til að ræða um hversu erfiður ég væri. Ég „fraus“ þegar ég sá hann heima hjá mér. Ég var svo hræddur að ég gróf öll brotin og viðbjóðinn innra með mér enda hafði ég hvorki þroska eða reynslu til að vinna úr þessu.“

Erfitt að koma aftur að Riftúni

Í skýrslu rannsóknarnefndar um Landakotsskóla er lýst hræðilegum brotum sem framin voru í Riftúni. Fórstu aldrei aftur í Riftún nema þetta eina sumar?

„Ég vildi aldrei, aldrei fara þangað aftur og foreldrar mínir ákváðu að senda mig ekki aftur. Ég reyndi að koma þangað löngu seinna. Ég var að vinna í Þorlákshöfn og hugsaði með mér að ég ætti að reyna að nota tækifærið, fyrst ég var að keyra þarna framhjá, og reyna að ná sáttum við Riftún. Þetta reyndist mér hins vegar mjög erfitt. Það er sérstakt að vera kominn á fimmtugsaldur og eiga konu og börn og njóta velgengni í lífinu, en geta ekki gengið uppréttur á þessum stað.

Ég fór þangað aftur fyrir nokkrum árum með konunni minni og blóðmóður minni, sem ég kynntist á miðjum aldri. Meðan þær voru við guðsþjónustu fór ég til að skoða mig um. Ég hitti þar umsjónarmann og ég sagði við hann að ég hefði verið þarna eitt sumar og ætti slæmar minningar frá þessum stað. Hann sýndi mér nærgætni enda skynjaði hann að það reyndi mikið á mig að ganga um húsið.“

„Vil að okkur sé trúað“

Hver urðu viðbrögð þín þegar fjölmiðlar fóru að birta fréttir af því sem gerðist í Landakotsskóla?

„Þegar byrjuðu að birtast frásagnir þolenda þá varð ég undrandi hversu sterk viðbrögð urðu hjá mér og hve sleginn ég var. Þegar auglýsing frá Fagráði Kaþólsku kirkjunnar birtist í janúar á þessu ári þá klippti ég hana út, en ég var ekki viss um að ég gerði neitt með þetta. Mér fannst þetta svo mikil ormagryfja og ég treysti mér eiginlega ekki í að rifja þetta upp. Það er svo ömurlegt að standa í þessu einn og óstuddur og ég vildi glaður vera að gera eitthvað allt annað.

Eftir að fréttir fóru að berast af þessu þá lét séra Hjalti Þorkelsson, sem tók við skólastjórn af séra Georg, hafa eftir sér ummæli þar sem hann gerir lítið úr því sem gerðist í skólanum. Hann sagðist aldrei hafa orðið var við neitt. Mér finnst hræðilegt að upplifa að okkur sem voru í skólanum sé ekki trúað.

Ég reiddist þessum ummælum og ákvað því að setja sögu mína á blað og sendi hana til Fagráðs.

Þegar fréttir um þetta mál birtust fór ég að upplifa þetta mjög sterkt þó að ég hafi verið búinn að loka á þetta, eða talið mig vera búinn að því. Minningarnar stukku fram. Þegar Kastljós fjallaði á sínum tíma um kynferðisofbeldi Karls Vignis Þorsteinssonar upplifði ég  mjög sterkt það sem ég mátti þola í skólanum. Ég fann t.d. allt í einu lyktina af séra Georg.“

„Viðbrögð þeirra voru engin“

Hefur þú aldrei gert tilraun til að ná sáttum við kaþólsku kirkjuna?

„Jú, það má segja að bæði mér og kaþólsku kirkjunni hafi gefist tækifæri til þess. Ég hef verið giftur kaþólskri konu sem ættuð er frá Filippseyjum í sjö ár og við eigum barn saman. Þegar hún og kaþólskir landar hennar fóru að tala um að sækja kaþólska kirkju hér á landi þá kom aðeins á mig. Ég vildi helst ekki fara í Landakot, en niðurstaðan varð sú að við fórum saman í Maríukirkjuna. Ég er alinn upp við kristna trú og ég fór með faðirvorið með foreldrum mínum sem barn. Ég finn því enn fyrir trúarþörf, kannski m.a. vegna þess að ég er óvirkur alkóhólisti í meira en tvo áratugi.

Prestar Kaþólsku kirkjunnar heimsækja safnaðarmeðlimi og í fyrsta skipti sem séra Patrik heimsótti mig árið 2009 þá sagði ég honum frá því að ég hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu séra Georgs og Margrétar Müllers. Þegar séra Denis heimsótti mig 2012 þá sagði ég honum líka frá því sama.

Viðbrögð þeirra voru hins vegar engin, bara þögn. Á þessum tíma hafði ég þörf fyrir einhverjar viðræður eða úrvinnslu á þeim sársauka sem ég hafði orðið fyrir. Ég var búinn að bera þetta ljóta leyndarmál alla ævi. Þetta var leyndarmál sem ég treysti mér aldrei til að segja foreldrum mínum frá, né þeim sem ég tengdist fjölskylduböndum síðar á ævinni.“

„Upphæðin er fram úr hófi hneykslanleg“

Finnst þér að Kaþólska kirkjan sé ekki búin að ljúka málinu með þeirri skýrslu sem gerð var, með bótagreiðslum og með þeirri beiðni um fyrirgefningu sem hún birti núna i nóvember?

„Nei, það finnst mér alls ekki. Viðbrögðin eru allt of veik. Ég er sannfærður um að það sem kom fram í þessari skýrslu er bara toppurinn á ísjakanum. Ég hef nokkrum sinnum hitt fólk sem var í Landakotsskóla og hefur sömu eða verri sögu að segja en ég. Ég vonast eftir að þessi frásögn mín verði til þess að fleiri komi fram og segi sögu sína. Ég vil hvetja fólk til að taka ekki þátt í að þegja þetta mál í hel.

Mér finnst líka að ríkið hafi sloppið ótrúlega vel frá þessu málið. Íslenska ríkið borgaði kaþólsku kirkjunni fyrir að mennta þessi börn, en það er eins og ríkið beri enga ábyrgð á því hvernig komið var fram við börnin. Þó að við séum orðin fullorðin höfum við áfram þörf fyrir vörn gegn kaþólsku kirkjunni.

Ég ræddi á sínum tíma við Guðrúnu Ögmundsdóttur, sem er tengiliður vistheimila fyrir þá sem fengu greiddar sanngirnisbætur. Hún hvatti mig til að segja Fagráði kaþólsku kirkjunnar sögu mína. Ég þykist vita að hún sé ekki sátt við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir í málinu. Mér hefði hins vegar fundist að ríkið mætti veita okkur meiri stuðning í baráttu okkar við kaþólsku kirkjuna. Ég kalla eftir henni.

Ég hef óskað eftir hjá lögfræðingi kirkjunnar að fá í hendur mat Fagráðs kaþólsku kirkjunnar á vitnisburði mínum og hvernig það kemst að þeirri niðurstöðu að ég eigi að fá 82.170 kr. í bætur.

Upphæðin er „afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg,“ svo ég noti orðalag sem Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup notar í bréfi sem hann sendi mér þegar hann lýsti afstöðu sinni til brotanna. Það er líka mjög einkennilegt að í bréfinu sem lögmaður kirkjunnar sendi okkur er hvergi nein upphæð tilgreind.

Kaþólska kirkjan fær á hverju ári um 8.400 krónur frá íslenska ríkinu sem eru skráðir í kaþólsku kirkjuna, en safnaðarmeðlimir eru um 11 þúsund. Það gerir um 92 milljónir á ári sem kirkjan fær frá ríkinu í sóknargjöld. Kaþólska kirkjan safnar peningum í gegnum heimasíðu sína, en þar er fólk hvatt, á nokkrum tungumálum, til skrá sig í gegnum Þjóðskrá. Síðan er okkur, sem höfum mátt þola ofbeldi af hálfu starfsmanna hennar, boðið upp á þessar smánarbætur.

Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að það að verða fyrir þessu mikla andlega og líkamlega ofbeldi í barnæsku hefur orðið mér að skaða fyrir lífstíð. Ég hef glímt við alkóhólisma, þunglyndi, reiði og sjálfsvígshugsanir mestan part af lífi mínu, sem ég tel beina afleiðingu af því ofbeldi sem ég upplifði í æsku. Ég hef t.d. þrisvar sinnum á ævinni leitað langrar sálfræðimeðferðar.

Að mínu mati brugðust séra Georg og Margrét gjörsamlega trausti og starfskyldum sínum. Ég hef aldrei séð nein rök frá kaþólsku kirkjunni fyrir því að henni beri engin lagalega skyldu til að bæta okkur þolendum ofbeldisins sanngjarnar bætur. Og siðferðilega skyldan er stór. Ég vissi ekki betur en að kirkjan byggi á gildum eins og mannúð, kærleika og umhyggju.“

Viðmælandi mbl.is var í Landakotsskóla á árunum 1970-1977.
Viðmælandi mbl.is var í Landakotsskóla á árunum 1970-1977. mbl.is/Jim Smart
Skýrsla rannsóknarnefndar yfir kaþólsku kirkjunni felur í sér áfellisdóm yfir …
Skýrsla rannsóknarnefndar yfir kaþólsku kirkjunni felur í sér áfellisdóm yfir starfsemi Landakotsskóla í skólastjóratíð séra Georgs. Í skýrslunni sagði að átta nemendur í Landakotsskóla sættu kynferðislegu ofbeldi af hendi kennara og skólastjóra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka