Rennibrautin við sundlaugina á Álftanesi er kennileiti bæjarins. Er táknmynd þess að boginn var spenntur hátt með kunnum afleiðingum. Myndirnar af brautinni hafa komið lauginni á kortið og verið fín auglýsing.
„Sundlaugin er vinsæl, hingað kemur fólk allsstaðar að af höfuðborgarsvæðinu og víðar. Yfir sumarið eru gerðar hingað út rútuferðir með farþega af skemmtiferðaskipum,“ segir Svavar Gunnarsson sundlaugarvörður. Íslendinga í hópi gesta segir hann gjarnan vera barnafólk enda séu krakkar spenntir fyrir rennibraut og öldulaug.
Þá sæki Álftnesingar sjálfir mikið í íþróttamiðstöðina, sem sundlaugin er hluti af, enda sé hún einskonar félagsheimili byggðarlagsins.