Saksóknari í Kaupmannahöfn hefur ákært þrjá Íslendinga og einn pólskan ríkisborgara fyrir að reyna smygla um 11,5 kílóum af e-töflum og hálfu kílói af kókaíni til Íslands. Mennirnir voru formlega ákærðir fyrir um hálfum mánuði. Málið mannanna verður tekið fyrir dómstólum 5. desember nk., en þá verður væntanlega ákveðið hvenær aðalmeðferð mun fara fram.
Þetta segir saksóknari í Danmörku í samtali við mbl.is, en hann gerir ráð fyrir því að aðalmeðferðin hefjist í næsta mánuði.
Málið tengist rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn á umfangsmiklu fíkniefnamáli, en dönsk lögregluyfirvöld greindu fyrst frá því í nóvember í fyrra. Rannsóknin var unnin í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kom að lögreglan hefði framkvæmt húsleitir á nokkrum stöðum og lagði hún hald á 40.741 e-töflu, hálft kíló af kókaíni og 26.500 dali í reiðufé. Kókaínið og peningarnir fundust í hótelherbergi pólska mannsins, sem er sagður höfuðpaurinn.
E-töflurnar fundust í íbúð í Kaupmannahöfn þar sem einn Íslendinganna dvaldi í.
Í síðasta mánuði var greint frá því að íslenska lögreglan hefði framselt þrjá Íslendinga til Danmerkur að kröfu þarlendra lögregluyfirvalda í byrjun október.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara var þetta í fyrsta sinn sem Íslendingar eru afhentir á grundvelli laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), en lögin tóku gildi 16. október 2012.