Ómálga börn voru beitt harðræði

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. mbl.is/Rósa Braga

Barnavernd Reykjavíkur þykir sýnt að annmarkar hafi verið á starfsemi ungbarnaleikskólans 101 og að ómálga börn hafi þar verið beitt harðræði. Í lokabréfi Barnaverndar til foreldra barna á leikskólanum kemur fram að ekki sé talin ástæða til frekari afskipta, enda sé málið í rannsókn lögreglu og leikskólanum hafi verið lokað.

Upplýsingar um stórlega ábótavant atferli starfsmanna á leikskólanum bárust Barnavernd Reykjavíkur í ágúst. Ákveðnir starfsmenn voru sakaðir um harðræði og í kjölfarið var tekin ákvörðun um að óska lögreglurannsóknar.

Ámælisverður skortur á yfirsýn yfir starfið

Leikskólanum var lokað sama dag, upphaflega kom fram að það væri tímabundin lokun en viku síðar ákvað eigandi leikskólans að hætta rekstrinum alveg. Alls dvaldi 31 barn á leikskólanum, en börnin voru 9-18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans voru 9 talsins.

Í bréfi sem foreldrar barna á leikskólanum fengu frá Barnavernd Reykjavíkur nú í vikunni segir að þegar horf sé til framkominna upplýsinga í málinu þyki sýnt að harðræði hafi verið beitt. 

„Um það vitna gögn sem borist hafa Barnavernd Reykjavíkur, myndbandsbrot, tilkynningar og frásagnir aðila. Verður að teljast ámælisvert að eigandi leikskólans og stjórnandi hafi ekki haft yfirsýn yfir framkomu starfsmanna sinna við þau börn sem á leikskólanum dvöldu,“ segir í bréfinu.

Rannsóknin á lokastigi

Könnun málsins er nú lokið af hálfu starfsmanna Barnaverndar, en bent er á í bréfi Barnaverndar að málið sé nú til meðferðar hjá lögfræðisviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við mbl.is á þriðjudag að rannsókn lögreglu sé á lokastigi og búið væri að taka skýrslur af um 40 manns, bæði foreldrum og starfsmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert