Gefa Færeyingum jólatré

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri. mbl.is/Rósa Braga

Reykjavíkurborg mun færa Þórshafnarbúum jólatré að gjöf í fyrsta sinn á morgun. Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, afhendir tréð við athöfn í Þórshöfn í Færeyjum.

Jón Gnarr, borgarstjóri, vildi með einhverju móti þakka Færeyingum þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina og var ákveðið í að færa þeim jólatré að gjöf í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Jólatréð var höggvið á skógræktarsvæði Skógræktar Reykjavíkur á Elliðavatnsheiðinni í Heiðmörk  þann 20. nóvember. Tréð er 12 metra hátt sitkagreni sem var gróðursett  árið 1960 af stúlknahópi  í Vinnuskóla Reykjavíkur og er því 53 ára gamalt. Eimskip sá um flutning trésins til Færeyja.

Þetta er fyrsta jólatréð sem Reykjavíkurborg gefur Þórshöfn og er það von borgarstjóra að þessi siður verði viðhafður ár hvert héðan í frá til að minna á  og treysta hin tryggu vinabönd milli þjóðanna tveggja. 

 Jólatrénu hefur verið komið fyrir á Tinghúsvöllinum, torgi í miðborg Þórshafnar, en þar verður haldin athöfn í tilefni jólahátíðarinnar á morgun, laugardaginn 30. nóvember, þar sem Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, mun afhenda tréð formlega fyrir hönd Reykjavíkurborgar og  kveikt verður á jólaljósunum.

 Í liðlega hálfa öld hefur Reykjavíkurborg fengið jólatré að gjöf frá Óslóarbúum og er jafnan kveikt á jólaljósunum á trénu með mikilli viðhöfn á Austurvelli.  Athöfnin hefur öðlast sérstakan sess í hugum borgarbúa sem fjölmenna ávallt á Austurvöll þegar kveikt er á trénu fyrsta sunnudag í aðventu.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert