Fyrstu vísbendingar um árangur af síldarfælingu með svokölluðum „Thunderflash“ hvellhettum í Kolgrafafirði í gær benda til þess að aðferðin virki við að smala síld. Ákveðið hefur verið að nýta reynsluna frá í gær til þess að halda áfram fælingaraðgerðum í dag í því skyni að kanna hvort aðferðin dugi til að koma meginhluta síldarinnar af því svæði þar sem hún er í mestri hættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.
„Hafrannsóknarstofnun vinnur nú að því að mæla magn síldar í firðinum nú, eftir aðgerðirnar í gær. Að þeim mælingum loknum verður hafist handa við að undirbúa framhald aðgerðanna í dag en ekki verður ljóst fyrr en undir kvöld með árangur þeirra.
Rétt er að taka fram að slíkar aðgerðir hafa ekki verið reyndar áður annars staðar eftir því sem menn komast næst. Ráðist er í þær í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi endurtaki atburðirnir frá í fyrra sig, þegar síld drapst í tvígang í firðinum í tugþúsunda tonna tali. Eins og við var búist höfðu aðgerðirnar í gær ekki neikvæð áhrif á síldina - ekki varð vart við dauða síld í kjölfar þeirra og eru ekki taldar líkur á slíkum áhrifum,“ segir í tilkynningu.
Báta- og bílaumferð bönnuð
Vegna aðgerðanna verður Kolgrafafjörður áfram lokaður fyrir bátaumferð og veiði og vegurinn innan fjarðar verður sömuleiðis lokaður almennri umferð á meðan á þeim stendur. Eftir sem áður verður opið fyrir umferð um brúna sjálfa, en ekki verður heimilt að stöðva ökutæki á brúnni.
Fylgst verður grannt með göngu síldarinnar í því skyni að viðhalda árangrinum, takist að smala síldinni út úr firðinum. Verður staðan endurmetin að loknum aðgerðum eftir að fyrir liggur árangur þeirra í dag.
Síldarskipum á svæðinu, heimamönnum, björgunarsveitum og öðrum þeim sem aðstoðuðu í gær eru færðar innilegar þakkir fyrir þeirra aðkomu. Þeirra aðstoð kom að miklu gagni við aðgerðirnar í gær og mun nýtast áfram við verkefni dagsins.