Jólasveinarnir í Dimmuborgum höfðu í mörgu að snúast í dag því margir gestir komu þar við og tóku þátt í ýmiskonar uppákomum sem boðið var upp á í Mývatnssveit.
Í dag var auk annars vörumarkaður í tjaldi í Borgunum. Þar kenndi margra grasa meðal annars héngu þar hangikjötskrof og sperðlar uppi, en hverabakað rúgbrauð, hvannafræ, heitar lummur og margt fleira á borðum.
Á morgun verður laufabrauðsdagur í Jarðböðunum eftir hádegið. Geta menn þar lært handbragðið við þá þjóðlegu matargerð en þaulvanar handverkskonur munu annast kennsluna.