Arðsemi í ferðaþjónustu hefur ekki verið viðvarandi, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í hringborðsumræðum Morgunblaðsins fyrir stundu. Það sýndi að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Hægt væri að íhuga fleiri staði á landinu þar sem ferðamenn gætu komið, eins og flugvöll á Akureyri eða Egilsstöðum.
Í máli Sigmundar kom fram að á meðal þess sem væri vandi í ferðaþjónustu væri hvað ferðamenn dreifðust ójafnt yfir árið. Það hefði hins vegar tekist á síðustu árum að fjölga ferðamönnum utan ferðamannatímans. Nefndi Sigmundur t.d. að auka þyrfti fjölbreytileikann og nefndi norðurljósaferðirnar í því sambandi.
Það væri búið að fá þúsundir ferðamanna til þess að fara í norðurljósaferðir, í nóvember eða janúar í von um að það yrði ekki skýjað og menn gætu séð norðurljósin. Það væri því hægt að gera margt í þessaari grein til að fjölga ferðamönnum utan ferðamannatímans.
Annar vandi væri hvað dreifing ferðamanna væri ójöfn yfir landið. Sagði Sigmundur að ein lausn sem mætti íhuga væri að útbúa alþjóðlega flugvelli, t.d. á Akureyri og Egilsstöðum, til þess að fjölga inngöngupunktum í landið.