Ríkisstjórnin telur að hægt sé að tryggja jafnvægi í ríkisrekstrinum eins og stefnt hafi verið að þrátt fyrir aðgerðir hennar í skuldamálum heimlanna sem kynnt voru í gær. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í hringborðsumræðum í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í tilefni af 100 ára afmæli Morgunblaðsins sem nú standa yfir í beinni útsendingu á mbl.is.
Sigmundur sagði að áfram yrði unnið að því að koma skuldamálunum í lag í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var í sumar. Aðgerðir væru aðeins hluti af miklu stærri aðgerðum sem sneru að því að koma efnahagslífinu aftur á réttan kjöl. Spurður hvort ekki væri óæskilegt að fólk væri alltaf að bíða eftir einhverjum aðgerðum í þeim efnum sagði forsætisráðherra að draga þyrfti úr óvissu í efnahagsmálunum ekki síst varðandi fjárfestingar. Lagði hann meðal annars áherslu á að aftur væri orðið gott að fjárfesta hér á landi.