Aukinn bankaskattur til að mæta útgjöldum vegna skuldaleiðréttingar er raunhæfur að mati Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Hann segir fátt markvert hafa komið frá slitastjórnum á síðustu misserum varðandi uppgjör þeirra og sá ekki að slíkt myndi gerast á næstunni. Þetta kom fram á hringborðsfundi Morgunblaðsins vegna loka á 100 daga hringferð.
Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði Bjarna hvað myndi gerast ef gengið yrði frá slitum á föllnu bönkunum áður en skuldaleiðréttingunni væri lokið. Sagði hann að ef sú staða kæmi upp myndi ríkisstjórnin væntanlega finna aðrar tekjuleiðir. Aðspurður hvort hann teldi líklegt að skatturinn yrði jafnvel hækkaður enn frekar sagði Bjarni það ólíklegt. Bankaskatturinn væri nú þegar „mjög ríflegur“ ef miðað væri við aðra skatta á landinu.